Barnamenningarhátíð er nú haldin í þriðja sinn dagana 23.–28. apríl 2013. Þar verður að finna fjölda viðburða sem börn og fullorðnir, í fylgd með börnum, geta sótt sér að kostnaðarlausu út um alla borg. Bókmenntaborgin lætur ekki sitt eftir liggja og býður upp á sögustund í Ævintýrahöllinni, ásamt ljóða- og tónsmiðju fyrir grunnskólanema og spjalli við höfunda nýrra unglingabóka.
Hugarflug með Sleipni í Ævintýrahöllinni
Í Ævintýrahöllinni í Iðnó, Vonarstræti 3, mun Sleipnir, hinn áttfætti og fleygi vinur Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur og allra söguþyrstra krakka, bjóða börnum og fylgdarfólki þeirra upp á samverustund með tveimur af okkar ástsælustu höfundum, laugardaginn 27. apríl klukkan 11:00-12:00. Þar býðst kjörið tækifæri til að kúpla sig út úr kosningaþysnum og takast á flug um heima og geima skáldskaparins.
Áslaug Jónsdóttir og Þórarinn Eldjárn verða á loftinu í Ævintýrahöllinni og þar geta börnin tekið flugið með vinunum litla og stóra skrímslinu sem flestir þekkja úr bókum Áslaugar, og sprellfjörugum barnaljóðum Þórarins. Litla og stóra skrímslið þurfa að koma sér saman um það hvað þau eigi helst að taka sér fyrir hendur þegar þeim leiðist og börnin geta örugglega hjálpað þeim að finna út úr því. Þórarinn mætir með sín frábæru barnaljóð, sem kæta og örva huga fólks á öllum aldri, allt frá ungum börnum til fullorðinna.
Barnamenningarhátíð teygir sig vítt og breitt um borgina og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Heildardagskrá má nálgast á heimasíðu
Barnamenningarhátíðar.
Sköpunarsmiðja og rithöfundaspjall
Bókmenntaborgin stendur að auki fyrir sköpunarsmiðju og bókmenntadagskrá fyrir grunnskóla á hátíðinni.
Arnljótur Sigurðsson, laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar Ojba Rasta, stýrir ljóða- og tónsmiðju þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna með hljómbrigði og taktinn í tungumálinu og semja sín eigin Reykjavíkurljóð. Í Ævintýrahöllinni verður grunnskólum boðið upp á bókmenntadagskrá með rithöfundunum Stefáni Mána og Margréti Örnólfsdóttur, sem velt hafa upp ólíkum spurningum um raunir og gleði unglinga í nýjustu verkum sínum,
Úlfshjarta og
Aþena – að eilífu, kúmen!. Rithöfundarnir lesa upp úr bókum sínum og spjalla við nemendurna um efni bókanna.
Gleðilega hátíð!