Á kosningardaginn, laugardaginnn 27. apríl býður Sleipnir, hinn áttfætti og fleygi vinur Bókmenntaborgarinnar og allra söguþyrstra krakka, börnum og fylgdarfólki þeirra upp á samverustund með tveimur af okkar ástsælustu höfundum, þeim Áslaugu Jónsdóttur og Þórarni Eldjárn. Dagskráin er hluti af Barnamenningarhátíð í Reykjavík. Hún fer fram í Iðnó, sem hefur breyst í Ævintýrahöll í tilefni Barnamenningarhátíðar í Reykjavík, og stendur frá kl. 11 - 12. Áslaug og Þórarinn verða á loftinu í Ævintýrahöllinni og þar geta börnin tekið flugið með vinunum litla og stóra skrímslinu sem flestir þekkja úr bókum Áslaugar, og sprellfjörugum barnaljóðum Þórarins. Litla og stóra skrímslið þurfa að koma sér saman um það hvað þau eigi helst að taka sér fyrir hendur þegar þeim leiðist og börnin geta örugglega hjálpað þeim að finna út úr því. Þórarinn mætir með sín frábæru barnaljóð, sem kæta og örva huga fólks á öllum aldri, allt frá ungum börnum til fullorðinna. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Sjá alla dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík. Skáldfákurinn Sleipnir stendur að ýmsum lestrarhvetjandi viðburðum fyrir yngri kynslóðirnar á vegum Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Sleipnir er gæddur þeim töfrum að geta flogið á milli heima og er því táknmynd ferðalagsins og hugarflugsins sem bóklestur býður okkur upp á.
Hugarflug með Sleipni í Iðnó
