Beint í efni

Íslensk öndvegisverk – takið þátt í að velja

Bókaþátturinn Kiljan er nú um stundir að taka saman lista yfir íslensk öndvegisverk – það sem er stundum kallað kanóna. Með þessu er átt við bókmenntaverk sem skara fram úr, eru ómissandi, sem fólk þarf að þekkja. Þetta er til gamans gert, en fróðleiks líka. Bókmenntaunnendur geta lagt hönd á plóg með því að tilnefna 20-30 íslensk bókmenntaverk, sem að þeirra mati eru öndvegisverk íslenskrar bókmenntasögu. Tilnefna má skáldsögur, ljóð, leikrit, ævisögur, barnabækur, fornsögur, fræðibækur og hvaðeina, eftir bæði lifandi höfunda og látna. Þó er eðlilega gerð krafa að um sé að ræða grundvallarrit – sem eru orðin þáttur í menningu okkar. Verkin mega vera frá öllum tímabilum – allt frá söguöld og fram til vorra daga. Tilnefningarnar skal senda á netfangið kiljan@ruv.is. Niðurstöðurnar verða ópersónugreinanlegar, þ.e. hvergi kemur fram hver hefur valið hvaða verk og fyllsta trúnaðar gætt. Góð bókaverðlaun verða veitt þremur þátttakendum.