Beint í efni

Íslensku barnabókaverðlaunin afhent

Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson hljóta Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Hrafnsauga. Bókin fjallar um Breka, Sirju og Ragnar, sem ættu að njóta seinustu áhyggjulausu daganna í sumarsólinni en framtíðin ber annað í skauti sér. Hrafnsauga er fyrsta bókin í þríleik sem nefnist Þriggja heima saga, sagnaflokkur þar sem blóðgaldrar, leyndarmál og gleymdar óvættir ógna veröldinni. Þetta er fyrsta skáldsaga höfundanna. Kjartan og Snæbjörn eru báðir fæddir árið 1984. Kjartan er bókmenntafræðingur og Snæbjörn er leikhúsfræðingur. Verðlaunaafhendingin fór fram í Austurbæjarskóla í Reykjavík. Alls bárust ríflega sextíu handrit til dómnefndar og hljóta vinningshafarnir hálfa milljón króna í verðlaun. Að verðlaununum standa fjölskylda rithöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar, barnavinafélagið Sumargjöf og Ibby á Íslandi.