Beint í efni

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2013

Andri Snær Magnason, Sjón og Guðbjörg Kristjánsdóttir verðlaunuð

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent  fimmtudaginn 30. janúar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Andri Snær Magnason hlaut verðlaunin í nýjum flokki barna- og unglingabóka fyrir skáldsöguna Tímakistuna, sem gefin er út af Máli og menningu. Þess má geta að þetta er í þriðja sinn sem Andri Snær fær verðlaunin og er hann jafnframt fyrstur til að hljóta þau í öllum flokkum, en fyrir hafði hann fengið verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir Söguna af bláa hnettinum árið 1999 og í flokki fræðirita fyrir Draumalandið árið 2006. Sjón hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Mánastein, sem gefin er út af JPV. Guðbjörg Kristjánsdóttir fékk verðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir Íslensku teiknibókina sem Crymogea gefur út. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti val lokadómnefndar á verðlaunahöfum. Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári. Lokadómnefnd var skipuð þeim Guðna Kolbeinssyni, Þorgerði E. Sigurðardóttur, Þóru Arnórsdóttur og Stefaníu Óskarsdóttur, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar. Smellið hér fyrir yfirlit tilnefndra bóka.