Beint í efni

Íslensku bókmenntaverðlaunin veitt í flokki barna- og unglingabóka í fyrsta sinn

Í ár verða Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrsta skipti veitt í flokki barna- og unglingabóka, en stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda samþykkti fyrir skemmstu að bæta við þriðja verðlaunaflokkinum. Til verðlaunanna var stofnað árið 1989 í tilefni 100 ára afmælis Félags íslenskra bókaútgefenda og hafa þau verið veitt árlega í flokki fagurbókmennta og flokki fræðirita og bóka almenns eðlis.  Fyrsta desember ár hvert eru fimm bækur í hverjum flokki tilnefndar til verðlaunanna sem síðan eru veitt skömmu eftir áramót. Það verða því höfundar þriggja bóka sem hljóta munu Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2013. Verðlaunafé í flokki barnabóka verður það sama og í hinum flokkunum, ein milljón. Frá stofnun verðlaunanna hafa einungis þrjár barnabækur hlotið tilnefningu og aðeins ein unnið til þeirra; Sagan af bláa hnettinum, eftir Andra Snæ Magnason, árið 1999. Mikilvægi innlendrar barna- og unglingabókaútgáfu er ótvírætt og er það von Félags íslenskra bókaútgefenda, sem standa að verðlaununum, að nýr flokkur barna- og unglingabóka verði góð hvatning fyrir höfunda og lesendur íslenskra bóka.