Barnabókin Frerk, du Zwerg! (Bergur dvergur), eftir þýska rithöfundinn Finn-Ole Heinrich með myndskreytingum Ránar Flygenring, hlaut þýsku barnabókaverðlaunin í ár. Verðlaunin voru afhent á Bókasýningunni í Frankfurt, sem haldin var 10. - 14. október. Bókin kom út í Þýskalandi í fyrra og er fyrsta atrenna höfundanna að barnabókmenntum. Lesa má nánar um verðlaunin á heimasíðu Sögueyjunnar. Rán Flygenring er íslensk-norskur grafískur hönnuður búsettur í Reykjavík. Hún var hirðteiknari Reykjavíkurborgar sumarið 2011, en hún hefur undanfarin ár unnið sem hönnuður og myndskreytir. Finn-Ole Heinrich var gestarithöfundur í Reykjavík síðastliðið sumar, í boði Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur og Goethe-stofnunar, og nýtti hann tækifærið til að vinna meira með Rán. Lesið var upp úr fyrstu köflum Frerk, du Zwerg! á íslensku í aðalsafni Borgarbókasafns á meðan Íslandsdvöl hans stóð.
Íslenskur myndskreytir og gestarithöfundur Bókmenntaborgar verðlaunuð í Frankfurt
