Jón Kalman Stefánsson hefur verið tilnefndur til ítalskra bókmenntaverðlaunanna Premi Bottari Lattes Grinzane. Himnaríki og helvíti kom út á ítölsku í þýðingu Silviu Cosimini í fyrra. Fyrsta upplag bókarinnar – 5 þúsund eintök – er uppselt og annað á leiðinni. Annað bindi þríleiksins, Harmur englanna, er væntanlegt á ítölsku í haust og mun Jón Kalman halda til Ítalíu og fylgja útgáfunni eftir með upplestrum og uppákomum Þrjú verk eru tilnefnd til verðlaunanna í ár og munu ungir lesendur, á aldrinum 14-19 ára, greiða atkvæði og ráða úrslitum um hver þessara þriggja hlýtur aðalverðlaunin en til þeirra var stofnað til þess að hvetja ungt fólk til þess að lesa. Fyrstu verðlaun eru 10 þúsund evrur en þau sem eru tilnefnd fá 2.500 evrur. Þýðingarréttur að lokabindi þríleiksins, Hjarta mannsins, hefur verið seldur til Tékklands, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar, Þýskalands og Hollands.
Jón Kalman tilnefndur til ítalskra verðlauna
