21. október var tilkynnt að Irina Bokova, framkvæmdastjóri UNESCO, hafi útnefnt Kraká í Póllandi sjöundu Bókmenntaborg UNESCO. Borgin bætist þar með í hóp Bókmenntaborganna Edinborgar, Dublinar, Iowa City, Melbourne, Norwich og Reykjavíkur og er hún fyrsta borgin á eftir Reykjavík sem ekki tilheyrir ensku málsvæði.
Við sama tækifæri var Brazzaville í Kongó útnefnd Tónlistarborg UNESCO, Zahlé í Líbanon Matargerðarlistaborg og Fabriano á Ítalíu Alþýðulistaborg UNESCO. Brazzaville er fyrsta afríska borgin sem hlýtur inngöngu í Samstarfsnet skapandi borga UNESCO, en borgirnar eru nú 38 frá öllum heimshlutum.
Bókmenntaborgin Kraká
Kraká er oft kölluð menningarhöfuðborg Póllands og þar stendur bókmenntalíf með blóma. Stórar bókmenntahátíðir eru haldnar í borginni, þær þekktustu eru Conrad hátíðin og Milosz hátíðin og þar er stærsta bókamessa Póllands einnig haldin árlega. Bókmenntastofnunin í Póllandi hefur aðsetur í Kraká og þar er fjöldi háskóla og útgáfustarfsemi er einnig sterk í borginni. Borgin státar af Nóbelsverðlaunahöfum í bókmenntum, m.a. þeim Czesław Miłosz, sem hlaut verðlaunin árið 1980, og Wisława Szymborska, sem fékk þau 1996.
Þess má geta að Kraká var ein af Menningarborgum Evrópu árið 2000, líkt og Reykjavík, og unnu borgirnar þá saman að vefgátt ásamt fleiri Menningarborgum Evrópu sem var upphafið að vef Borgarbókasafns Reykjavíkur, bokmenntir.is. Rithöfundaheimsóknir milli borganna fylgdu í kjölfarið og bauð Borgarbókasafn pólska höfundinum Slawomir Mrozek á Bókmenntahátíð í Reykjavík haustið 2000 af þessu tilefni. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO á nú aðild að pólska ljóðaverkefninu ORT og er kynning á pólskri ljóðlist á Lestrarhátíð í Reykjavík nú í október hluti af því verkefni. Að sama skapi verður Bókmenntaborgin Reykjavík kynnt á Conrad hátíðinni í Kraká nú í mánuðinum á sérstökum
Reykjavíkurdegi.
Við hjá Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fögnum innilega innkomu Krakár í samtök Skapandi borga UNESCO og hlökkum til að vinna áfram með þessum kollegum okkar á bókmenntasviðinu á næstu misserum og árum.
Hér má sjá þau tíu atriði sem Kraká telur upp sem rökstuðning fyrir því að borgin sé bókmenntaborg:
1. Menningarhöfuðborg Póllands og Menningarborg Evrópu árið 2000
Kraká er þekktasta pólska borgin á alþjóðavísu, menningarleg höfuðborg landsins og borg bókmennta og ljóðlistar. Kraká hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 1978. Svæðið sem tekur til gamla bæjarnins, Wawel hæða og gyðingahverfisins Kazimierz – sem kemst næst Josefov í Prag hvað varðar gyðinglegar minjar – eru þar með á varðveisluskrá UNESCO. Kraká var ein af Menningarborgum Evrópu árið 2000. Eitt af verkefnum ársins nefndist „Hugsun – Andleg göfgi – Sköpun“ og fólst það í samræðu skálda frá austri og vestri.
2. Aldagömul bókmenntaarfleifð
Kraká er eitt af stærstu lærdómssetrum Póllands. Þar eru 23 stofnanir á háskólasviði, meðal annars sú elsta og mikilvægasta – Jagellonica Háskóli (Universitas Jagellonica Cracoviensis), sem var stofnaður árið 1364. Hann var næstur á eftir Háskólanum í Prag, sem var fyrsti háskólinn í þessum hluta Evrópu. Meira en 200.0000 nemendur stunda nám í Kraká á hverju ári á öllum sviðum vísinda. Borgin kallar þannig til sín hæfileikafólk hvaðanæva að. Kraká er miðstöð bókmenntarannsókna í Póllandi og að sama skapi stendur borgin framarlega hvað varðar ný bókmenntaform svo sem rafbækur, stafræna ljóðlist, bókmenntaleiki og önnur ný form. Kraká er einnig í fararbroddi í Póllandi hvað varðar að koma bókmenntaarfinu í stafrænt form.
3. Menntun
Borgin stendur vel að vígi vegna sögu listamanna- og lærdómsetra í gegnum aldirnar. Elsti háskóli Póllands, Universitas Jagellonica Cracoviensis, opnaði árið 1364, númer tvö í þessum hluta Evrópu á eftir Háskólanum í Prag. Í dag eru 210.000 nemendur skráðir í 23 háskólastofnanir í Kraká og borgin er þar með í öðru sæti á eftir Varsjá í þessu tilliti. Um 50.000 háskólanemar útskrifast í Kraká árlega. Það sem dregur nemendur að Kraká er ekki einungis þessi kraftmikla og vaxandi borg heldur einnig vaxandi atvinnumarkaður. Þannig laðar borgin að sér hæfileikafólk í ólíkum greinum. Kraká er meðal stærstu skapandi kjarna í Evrópu og leiðandi í þessum hluta álfunnar hvað varðar háskólakennara, rannsóknarsetur og mannauð, bæði innan hugvísinda og á sviði tækni og upplýsingafræða. Að auki er Kraká í fararbroddi í Póllandi á sviði bókmenntarannsókna vegna þess starfs sem unnið er í Pólsku vísindaakademíunni, Pólsku lærdómsakademíunni og JU.
4. Starfsemi bókmenntastofnanna
Í Kraká eru heimkynni helstu bókmenntastofnanna Póllands, bæði hvað varðar kynningu pólskra bókmennta erlendis og stuðning við bókmenntir heima fyrir. Bókmenntastofnun Póllands (stofnuð 2004), Rithöfundasamband Póllands, Pólsku rithöfundasamtökin, Vísindaakademía Póllands og Pólska Menntaakademían eiga aðsetur í Kraká, svo og ótal samtök og félög sem styðja við bókmenntir og bókmenntalíf. Kraká er einnig aðsetur ritstjórnaskrifstofa fjölda dagblaða og bókmenntatímarita, svo sem Tygodnik Powszechny, mánðarritið Znak, Dekada Literacka og Radar, sem eiga stóran hlut í kynningu bókmennta á landsvísu. Ritstjórar þessara blaða koma að skipulagningu bókmenntahátíða og viðburða, auk gagnrýni og útgáfustarfa. Kraká er auk þess stærsta leiklistarmiðstöð Póllands og þar starfa bæði aldagömul leikhús og önnur nýrri af nálinni, sem fást við efni á borð við réttindi minnihlutahópa, málefni innflytjenda og önnur málefni samtímans.
5. Bókmenntahátíðir
Til viðbótar við fjölda leikhús-, tónlistar- og kvikmyndaviðburða, eru helstu bókmenntahátíðir í Póllandi haldnar í Kraká. Milosz hátíðin og Conrad hátíðin. Á hverju ári koma höfundar hvaðanæva að í heiminum til Kraká, auk innlendra höfunda, ljóðskálda og blaðamanna. Báðar þessar hátíðir hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Til hliðar við höfundaviðburði eru fræðileg málþing, umræður, tónleikar, þýðenda- og útgefendaþing. Á sama tíma og Conrad hátíðin fer fram er stærsta bókasýning Póllands haldin í borginni. Til viðbótar má telja Bók og rós dagana í héraðinu Malopolska, Myndasöguhátíð, Vefljóðakeppni, 366 ljóð á 365 dögum, Seinna líf bókarinnar, fjölljóða-viðburði og þátttöku Krakár í Pólland les fyrir börnin. Telja má upp fleiri lestrarhvetjandi verkefni og ótal bókmenntaviðburði.
6. Styrkir og bókmenntaverðlaun
Meðal bókmenntaverðlauna sem veitt eru í Kraká má nefna Transatlantyk verðlaunin sem eru veitt fyrir kynningu á pólskum bókmenntum erlendis, Jan Długosz verðlaunin fyrir bestu bók ársins á sviði hugvísinda; Kazimierz Wyka verðlaunin fyrir afburðaskáldskap á sviði ritgerðaskrifa og gagnrýni, Wisława Szymborska ljóðaverðlaunin og Stanisław Vincenz New Culture of New Europe Award. Krakárborg útnefnir að auki bók mánaðarins hvern mánuð. Um langt árabil hafa forlög og höfundar í Kraká hlotið flestar tilnefningar á vegum útgefenda í Póllandi. Villa Decius samtökin, sem hafa starfað í Kraká í 12 ár, veita styrki til ungra höfunda og þýðenda. Meira en hundrað höfundar frá Póllandi og öðrum löndum hafa nýtt sér þennan styrk. Albrecht Lempp styrkurinn er einnig veittur í Kraká, en hann styður þýðingar milli pólsku og þýsku. Kraká gekk í samtökin International Cities of Refuge Network (ICORN) árið 2011, en það veitir ofsóttum rithöfundum skjól.
7. Bókamarkaðurinn
Stærstu og virtustu forlög Póllands eiga aðsetur í Kraká, en þar eru einnig mörg smærri og sértækari útgefendur. Samhliða Conrad hátíðinni er stærsta bókasýning Póllands haldin í Kraká (allt að 500 pólskir útgefendur sýna) og frá 2011 hefur eina barnabókamessan í Póllandi verið haldin í Kraká. Forlög í Kraká gefa út meira en 3.000 titla árlega sem eru prentaðir í um 6 milljón eintaka. Rithöfundar og útgefendur í Kraká hljóta fleiri tilnefningar til stærstu bókmenntaverðlauna Póllands en höfundar og útgefendur frá öðrum svæðum í landinu. Í borginni eru eru um 80 bókabúðir og nærri því 30 fornbókaverslanir. Á markaðstorginu í Kraká má finna byggingu sem hefur hýst bókabúð samfellt frá árinu 1610. Listbókamarkaðurinn er í þróun og bækur í Kraká eru nú gefnar út í fjölbreyttu formi: sem rafbækur, hljóðbækur o.s.frv.
8. Bókasöfn
Kraká er borg hinna fyrstu skrifarastofa, bókasafna og prentsmiðja. Í dag er fjöldi bókasafna starfandi í borginni, borgarbókasöfn, fagbókasöfn, skólabókasöfn og háskólabókasöfn. Stærsta bókasafnið í Kraká er Jagiellonia bókasafnið, en það varðveitir margar af perlum pólskra bókmennta og tungumáls. Safnið safnar einnig og varðveitir pólskt prentefni, hvort sem það er prentað í Póllandi eða annars staðar. Í borginni eru einnig varðveitt handritasöfn sem eru meðal þeirra elstu í Evrópu.
9. Nóbelsverðlaunahafar
Saga borgarinnar er nátengd sögu pólskra handhafa Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum. Tímaritið Czas birti sem framhaldssögu kafla úr skáldsögu eftir Henryk Sienkiewicz (Quo Vadis), sem hlaut verðlaunin árið 1905. Władysław Stanisław Reymont, sem fékk Nóbelsverðlaunin árið 1924 heimsótti borgina reglulega. Czesław Miłosz, sem hlaut verðlaunin 1980, bjó í Kraká síðustu æviárin og Wisława Szymborska bjó mestan hluta ævinnar í Kraká, en hún hlaut verðlaunin árið 1996. Ótal handhafa Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum hafa heimsótt borgina, nú síðast Mario Vargas Llosa, Herta Müller og Orhan Pamuk.
10. Borg ljóðskáldanna
Ímyndin af Kraká sem borg bókmenntanna er meðal annars sköpuð af frábærum ljóðskáldum. Kraká var höfuðborg módernismans í bókmenntum, þar voru fútúristarnir og þar á framúrstefnan (avant-garde) rætur sínar í Póllandi. Kraká er enn suðupottur listræns aktívisma í pólskri ljóðlist og hundruð ljóðskálda búa og starfa í borginni. Ljóðakvöld og aðrar ljóðasamkomur eru vinsælli í Kraká en víðast hvar annars staðar í heiminum þar sem stórir hópar fólks sækja slíkar samkomur. Litið er á ljóðskáld sem hetjur heima fyrir og ungskáldum býðst að taka þátt í margs konar samkeppnum. Þegar Kraká var ein af Menningarborgum Evrópu árið 2000 var borgin fundarstaður skálda frá austri og vestri, en þessi hátíð var skipulögð af pólsku Nóbelsverðlaunahöfundunum Wisława Szymborska og Czesław Miłosz. Ljóðaviðburðir af ýmsum toga njóta vinsælda í dag.
Sjá vef Bókmenntaborgarinnar Krakár.