Lani Yamamoto hlaut Dimmalimm - íslensku myndskreytiverðlaunin 2013 fyrir bók sína Stínu stórasæng. Hún kom út hjá forlaginu Crymogeu. Verðlaunin voru veitt í Gerðubergi sunnudaginn 25. janúar og um leið opnaði sýningin Þetta vilja börnin sjá, en þar má sjá þær bækur sem kepptu til verðlaunanna. Í dómnefnd Dimmalimm verðlaunanna sátu þau Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Gunnar Karlsson og Halldór Þorsteinsson. Í rökstuðningi dómnefndar um Stínu stórasæng segir meðal annars: Sá metnaður sem Lani Yamamoto hefur lagt í útgáfu barnabókarinnar Stína stórasæng er aðdáunarverður. Myndskreytingin er hér órjúfanlegur hluti sögunnar og bráðskemmtileg framlenging textans. Heildarhönnun og uppsetning er afar vönduð þar sem hver opna er úthugsuð og er myndrænt sterk. Stína stórasæng fjallar um stelpu sem hræðist það að vera kalt og beitir allri sinni hugvitssemi til að forðast kuldann. Hún kemst brátt að því að það er ekki alltaf skynsemin og vitið sem eru best til fallin til að halda á sér hita. Sagan er dæmisaga um að vinátta geti opnað nýjar dyr og veitt okkur hlýju. Myndirnar gefa sögunni aukna vídd, til dæmis með skírskotun í vinnuteikningar eða „blueprint“ af tækjum og tólum, uppfinningar sem geta bæði fangað okkur og frelsað. Til viðbótar má nefna skemmtilegt samstarf Lani við hönnunarteymið Vík Prjónsdóttur sem hannaði lestrarvettlinga utan um bókina fyrir þá sem kannast við það að vera alltaf kalt. Einfaldleiki en um leið visst nostur í stíl Lani er eftirtektarverður en það sem styrkur hennar liggur hvað helst í – er hve sannfærandi karaktersköpun hún veitir sögupersónum sínum. Mætti helst nefna skemmtileg lítil sérkenni í líkamsstöðu eða líkamsbeitingu sem veitir þeim sérstæðan hversdagslega mannlegan karakter.
Lani Yamamoto fékk Dimmalimm
