Nú geta vegfarendur í miðbæ Reykjavíkur fengið að láni bækur úr Litlu bókhlöðunni í Thorvaldsenslundi í Hljómskálagarðinum.
Hvað er lítil bókhlaða?
Lítil bókhlaða er vatns- og fokheldur kassi, eða skápur, sem er komið fyrir á stað sem er aðgengilegur almenningi. Innan í eru bækur sem hver sem er getur fengið að láni og skilað svo aftur í Litlu bókhlöðuna. Þetta er ekki geymsla fyrir bækur og tímarit sem enginn vill, heldur agnarlítið bókasafn með sérvöldu efni handa fjölbreyttum lesendahópi.
Hvers konar bækur eru í Litlu bókhlöðunni?
Litla bókhlaðan hýsir bækur á mörgum tungumálum, en bókmenntir frá Íslandi og Norður-Ameríku verða þó í brennidepli. Safnkosturinn inniheldur efni úr alls konar geirum og fyrir fólk með mismunandi áhugasvið, til að mynda fagurbókmenntir, krimma, vísindaskáldskap, teiknimyndasögur og hannyrðabækur. Um bókakostinn munu sjá bókasafnsfræðingar, bókmenntafélög, fræðafólk, útgefendur, bókabúðaeigendur, sem og aðrir ákafir unnendur íslenskra bóka.
Hvaðan kemur hún?
Bókhlaðan sjálf er aðkeypt frá
Little Free Library samtökunum í Bandaríkjunum. Þetta er fallegur lítill kassi sem sver sig í ætt við húsastíl Amish-fólksins. Hann mun verja þær bækur sem verða til útláns hverju sinni fyrir reykvísku veðri og vindum. Þess ber að geta að í smíðina var notast við endurnýttan við sem fenginn var úr gamalli amerískri hlöðu sem skýstrókur feykti um koll fyrir tæplega einni öld.
Brautryðjandi Litlu bókhlöðunnar í Reykjavík er Larissa Kyzer og er hún ráðskona safnsins. Larissa er Fullbright styrkþegi við Háskóla Íslands, þar sem hún hefur stundað nám í íslensku, en Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO aðstoðaði hana við að finna hlöðunni góðan stað í miðborginni.
Frekari upplýsingar um Litlu bókhlöðuna má nálgast á heimasíðunni
littlefreelibraryreykjavik.wordpress.com
[gallery link="file" order="DESC" orderby="title"]