Beint í efni

Ljóð í borgum

Ljóðlistin hefur verið áberandi það sem af er októbermánuði á Lestrarhátíð í Reykjavík. Ljóðskreyttir strætisvagnar hafa ferjað ljóð á milli borgarhluta, þau hafa lýst upp strætóskýli og birst óvænt á flettiskiltum við helstu umferðaræðar Reykjavíkur. Nú hafa kvæði íslenskra skálda tekið flugið yfir til meginlands Evrópu og reka íbúar fimm borga í Póllandi augun í íslenskar ljóðlínur á ferðalagi um Kraká, Varsjá, Gdansk, Gdynia og Sopot um þessar mundir. Ljóðin hafa rutt sér leið inn í neðanjarðalestir og strætisvagna og tróna á stærðarinnar auglýsingaskiltum víða í borgarlandslagi Póllands. Þessi framlenging á Lestrarhátíð í Reykjavík er unnin í samstarfi Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur og pólsk-íslenska ljóðlistarverkefnisins ORT. Íslensku skáldin sem taka þátt í verkefninu eru Bragi Ólafsson, Gerður Kristný, Gyrðir Elíasson, Ingunn Snædal, Ingibjörg Hraldsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Sjón, Þórarinn Eldjárn. Frekari upplýsingar um ORT má nálgast á heimasíðunni ort-project.eu [gallery link="file" ids="6895,6896,6897,6898,6899,6900,6901"] Ljósmyndir: Jowita Kiepas, Anna Palonka og Zbigniew Bartosiak.