Beint í efni

Ljóðarúta á Lestrarhátíð 2013

Ljóðið tók á rás um borgina 1. október, á Lestrarhátíð í Reykjavík, og hefur sett svip sinn á mannlíf og umhverfi Reykjavíkur allan mánuðinn. Lokaviðburður hátíðarinnar fór fram í ljóðarútu sem keyrði um borgina og bauð skáldum far gegn upplestri ljóða. Leiðsögumaður var Sigurlín Bjarney Gísladóttir, sem hélt farþegum við efnið milli stoppa; þuldi upp ljóðrænan fróðleik um borgina og las kvæði eftir sjálfa sig og aðra. Skáldin sem fengu far með rútunni voru þau Bjarki Karlsson, Bragi Ólafsson, Gerður Kristný, Heiða Eiríks, , Sindri Freysson, Þórdís Gísladóttir, Kári Tulinius og Valgerður Þóroddsdóttir. Rútan var þéttsetin og fengu farþegar einnig að njóta söngs og tóna tónlistarkonunnar Myrru Rósar Ferðin endaði þar sem hún hófst – við tónlistarhúsið Hörpu – og þar steig upp í vagninn skáld að handan og las upp nokkur ljóð. Skáldið bað gesti um að nefna sig og ekki vantaði getspekina hjá farþegum ljóðarútunnar, þar sem þónokkrir vissu upp á hár hvert það var: engin önnur en Nína Björk Árnadóttir, í túlkun leikkonunnar Maríu Pálsdóttur. Ljóðrænn rúntur um borgina var einkar viðeigandi lokahnykkur á Lestrarhátíðinni. Mikið hefur gengið á undanfarinn mánuð, með fjölda viðburða og uppákoma þar sem ljóðið hefur verið í brennidepli, og viljum við þakka öllum þeim sem komu að hátíðinni og tóku þátt. Lengi lifi ljóðið! [gallery link="file" columns="2" ids="6981,6977,6978,6980,6982,6983,6984,6985"]