Bókmenntaborgin Reykjavík og Vinnuskóli Reykjavíkur taka höndum saman nú í júlí um að stensla línur úr ljóðum íslenskra skálda á stéttar í borginni. Vegfarendur geta því séð unga fólkið mála ljóðastiklur víða í miðbænum þessa dagana, meðal annars þessar línur úr Morgunljóði Lindu Vilhjálmsdóttur: ég er úr ljósi og lofti yfir mér svífandi sjófugl undir mér lína úr ljóði hafið er skínandi bjart Göturnar eru því svo sannarlega fullar af ljóði í sumar, eins og segir í samnefndu ljóði Einar Ólafssonar (Göturnar eru fullar af ljóði), í bókstaflegum skilningi. Verkefnið miðar að því að vekja athygli borgarbúa og gesta á íslenskum skáldskap, um leið og lífgað er upp á borgarlífið og Bókmenntaborgin Reykjavík er kynnt. Ljóðlínurnar eru úr ljóðum tólf skálda og eru þær bæði á íslensku og í enskri þýðingu. Þær prýða gangstéttar í Austurstræti, á Laugavegi, á göngustígnum við Sæbrautina svo og við gömlu höfnina. Ein stiklan er eftir Einar Má Guðmundsson úr ljóðinu Ræðupúlti örlaganna. Hann las það upp á Laugaveginum í gær, þann 5. júlí, á meðan ljóðið var málað á stéttina eins og sjá má hér í frétt á mbl.is. Ljóðin sem prýða munu göturnar í sumar eru: Gamla höfnin Stefán Hörður Grímsson: Spor Kristín Ómarsdóttir: Dúfurnar hvítu Gerður Kristný: Nótt Sæbraut Jóhann Sigurjónsson: Heimþrá Sigurbjörg Þrastardóttir: Akrafjall Ingibjörg Haraldsdóttir: Svar Austurstræti Halldór Laxness: Bráðum kemur betri tíð Pétur Gunnarsson: Einn Vilborg Dagbjartsdóttir: Ættjarðarást Laugavegur Sjón: Söngur steinasafnarans Einar Már Guðmundsson: Ræðupúlt örlaganna Linda Vilhjálmsdóttir: Morgunljóð
Ljóðin fara á kreik
