Beint í efni

Marvel á Borgarbókasafni

Borgarbókasafn og Myndlistaskólinn í Reykjavík standa nú í fimmta sinn fyrir myndasögusamkeppni og -sýningu fyrir fólk á aldrinum 10-20+ ára. Í ár verður tekin upp sú nýbreytni að keppt verður í aldurshópum: 10-12 ára, 13-16 ára og 17-20+.

Sem fyrr er keppnin helguð tiltekinni myndasöguhetju en árið 2013 eru fimmtíu ár liðin frá því að fyrstu tölublöð úrvalshetjuhópa silfuraldarinnar svokölluðu, X-Men og Avengers, litu dagsins ljós. Þema keppninnar er því „Marvel“, í höfuðið á útgefanda þessara sagna og driffjöður silfuraldar bandarísku myndasögunnar. Dómnefnd skipa Bjarni Hinriksson myndasöguhöfundur, Björn Unnar Valsson, bókmenntafræðingur og Inga María Brynjarsdóttir grafískur hönnuður og myndhöfundur. Miðað er við að hámarkslengd efnis sé 2 A4 blöð eða ein síða í A3 (öðru megin) og eru þátttakendur beðnir að nota frekar þykkan pappír en ekki venjuleg fjölritunarblöð til að tryggja að verkin verði fyrir sem minnstu hnjaski í upphengingu. Vinnuaðferðin er algerlega frjáls og verkin geta hvort sem er verið myndasaga eða stök mynd með myndasögutema og / eða sem tengist myndasögum á einhvern hátt. Þátttakendur eru beðnir að skila verkunum á Borgarbókasafnið, aðalsafn, Tryggvagötu 15, í umbúðum merktum: „Marvel 2013“. Vinsamlega athugið að láta fylgja fullt nafn, fæðingarár, símanúmer og tölvupóstfang. Skilafrestur efnis í samkeppnina er til og með 2. maí. Sýning á sögum sem berast í keppnina opnar laugardaginn 18. maí, hvítasunnuhelgina. Upplýsingar veita Björn Unnar Valsson, bjorn.unnar.valsson@reykjavik.is og Katrín Guðmundsdóttir, katrin.gudmundsdottir@reykjavik.is, eða í síma 4116100. Allt um myndasögusamkeppni Borgarbókasafns og Myndlistaskólans er að finna hér!