Í tilefni af fullveldisafmæli Íslands efnir Bókmenntaborgin Reykjavík til ljóða- og prósaverkefnisins MÓTÞRÓI, þar sem ungum skáldum á aldrinum 18 - 30 ára býðst að skrifa saman yfir eina helgi, í samræðu hvert við annað. Ljóðskáldið Fríða Ísberg ritstýrir verkefninu.
Tekist verður á við ljóðahefðina, ættjarðarljóð, klisjur og unnið markvisst að því að endurnýja hið gamla, endurvinna þemu, streitast á móti hefðinni og skrifa í kringum mótþróahugtakið. Unnið verður í tveimur hópum, annars vegar á Skriðuklaustri í Fljótdalshéraði helgina 12.- 13. maí og hins vegar í Gröndalshúsi í Reykjavík helgina 9. - 10. júní.
Afraksturinn verður síðan í brennidepli í Lestrarhátíð í Bókmenntaborg í október næstkomandi.
Stærð hvors hóps um sig er takmarkaður og því þarf að skrá þátttöku.
Smiðjan á Skriðuklaustri verður helgina 12. - 13. maí, kl. 13 - 17 báða dagana.
Skráningarfrestur er til 7. maí.
Smiðjan í Gröndalshúsi verður helgina 9. - 10. júní, kl. 13 - 17 báða dagana.
Skráningarfrestur er til 4. júní.
Skráning og nánari upplýsingar: bokmenntaborgin@reykjavik.is.
Verkefnið er hluti af dagskrá á aldarafmæli fullveldis Íslands og er styrkt af fullveldissjóði.