Síðasti viðburðurinn í heimsbókmenntahaustinu í Bókmenntaborginni Reykjavík er helgaður norska höfundinum Nikolaj Frobenius, en skáldsaga hans Svo heitt varst þú elskaður kemur út hjá forlaginu Draumsýn laugardaginn 22. september í þýðingu Ólafs Bjarna Halldórssonar. Á dagskrá í Norræna húsinu kl. 14 sama dag spjallar rithöfundurinn Sjón við Frobenius, höfundaverk hans verður kynnt og lesið verður úr bókinni, bæði á norsku og íslensku. Höfundurinn les sjálfur á norsku og Sigurður Helgason íslensku. Allir eru velkomnir á viðburðinn. Svo heitt varst þú elskaður segir frá sambandi feðga. Skyndilegt heilablóðfall rekur föður Emils Ulvdals í kvalarfulla og erfiða ferð að lífslokum. Í ferðinni skiptast á skin og skúrir, hægur bati og snöggt bakslag. Viktor breytist úr því að vera kærleiksríkur og ómissandi faðir og afi í sjúkan og hruman mann sem verður sífellt háðari öðrum. Hann er sendur á milli sjúkrahúsa, skammtímarýma og eigin heimilis sem hentar honum alls ekki. Hjá Emil snýst tilveran um veikan föður sinn: Hvernig á hann að sjá til þess að faðir hans búi við öryggi og að þeir fjarlægist ekki hvor annan? Persónuleiki Viktors breytist þegar hann fær nýtt heilablóðfall. Þessi elskulegi maður verður sífellt óútreikanlegri og bitrari. Hann er ekki sáttur við að segja skilið við lífið og vil ekki mæta dauðanum af stóískri ró. Mitt í þessari baráttu við hið óumflýjanlega sækir sorgin að Emil þar sem hann sér líf föður síns fjara út og hann finnur fyrir örvæntingu og vanmætti sem aðstandandi manns sem neitar að deyja. Svo heitt varstu elskaður er hlý og grípandi bók um hið nána og flókna samband milli sonar og föðurs. Hún leggur fram afgerandi spurningu um afstöðu okkar til aldurs og dauðans, en fjallar fyrst og fremst um hvernig það er að sjá þann sem þú elskar svo heitt þjást og horfast í augu við dauðann. Nikolaj Frobenius (f. 1965) gaf út fyrsta verk sitt, prósasafnið Virvl, árið 1986. Hann sló í gegn sem rithöfundur með skáldsögunni Latours katalog og hafa bækur hans verið þýddar á fjölda tungumála. Til viðbótar við skáldsögur hefur hann skrifað ritgerðir og greinar, leikrit og nokkur kvikmyndahandrit. Kvikmyndin S¢nner av Norge sem byggir á skáldsögunni Teori og Praksis var frumsýnd í norskum kvikmyndahúsum haustið 2011. Frobenius er margverðlaunaður höfundur, eins og sjá má ef þessum lista: 2011: Prix Jean Monnetdes Jeunes Européens (fyrir Jeg skal vise dere frykten) 2008: P2-lytternes romanpris 2008: Ungdommens kritikerpris 2008: Tilnefndur til Brageprisen 2008: Tilnefndur til Bokhandlerprisen 2004: Oslo-prisen 2004: Tilnefndur til Brageprisen 1998: Tilnefndur til Aristeion-prisen 1997: Anders Jahres pris fyrir unga listamenn
Nikolaj Frobenius í Reykjavík
