Blóð hraustra manna eftir Óttar Norðfjörð hlýtur Tindabikkju Glæpafélags Vestfjarða
Blóð hraustra manna eftir Óttar M. Norðfjörð hlaut Tindabikkjuna 2013, árleg verðlaun Glæpafélags Vestfjarða fyrir bestu glæpasögu ársins, sem afhent voru í Safnahúsinu á Ísafirði um helgina. Þetta er í fjórða skipti sem verðlaunin eru veitt en eins og áður eru verðlaunin listaverk eftir vestfirskan listamann. Í þetta skiptið var það Pétur Tryggvi Hjálmarsson, silfursmiður, sem bjó til verðlaunagripinn en auk hans fær verðlaunahafinn nokkur kíló af frosinni tindabikkju frá Fiskbúð Sjávarfangs á Ísafirði.
Í rökstuðningi dómnefndar segir um Blóð hraustra manna: „Höfundi tekst að magna upp spennu frá fyrstu síðu, bókin heldur athygli lesandans vel og persónurnar trúverðugar. Illmennið gaf okkur glæpsamlegan hroll og bifreiðaverkstæði hafa nú bæst í hóp vafasamra staða til að vera á. Sérlega ef maður álpast ofan í gryfjuna. Það er sannarlega ekki góður staður til að vera á.“