Skáldsagan Hið fullkomna landslag eftir Rögnu Sigurðardóttur hefur verið tilnefnd til IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunanna. Bókin kom upphaflega út árið 2009, á vegum Forlagsins, en ensk þýðing hennar The Perfect Landscape var gefin út af AmazonCrossing árið 2012. IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunin eru hæstu peningaverðlaun sem veitt eru fyrir stakt bókmenntaverk í heiminum, en verðlaunaféð nemur 100.000 evrum. Verðlaunin eru veitt fyrir skáldsögu á ensku, hvort sem er frumsamda eða í þýðingu. Bókasöfn víðs vegar um heim tilnefna til verðlaunanna og fimm manna dómnefnd skipuð alþjóðlegum rithöfundum og bókmenntafræðingum velur tíu bækur af þeim lista og síðan eina sem hlýtur verðlaunin. Í ár eru 152 bækur tilnefndar til verðlaunanna. Hinn 9. apríl á næsta ári verður kynnt hvaða tíu bækur komast í lokaúrval verðlaunanna. Tilkynnt hver hlýtur verðlaunin þann 17. júní. Skáldsagan Rökkurbýsnir eftir Sjón var tilnefnd í fyrra, og komst hún í lokaúrval dómnefndar. Skáldsagan City of Bohane, eftir írska rithöfundin Kevin Barry, varð hlutskörpust það árið. Frekari upplýsingar um hvaða bækur eru tilnefndar í ár má nálgast á heimasíðu IMPAC verðlaunanna. Hægt er að kynna sér Rögnu Sigurðardóttur og verk hennar á vefnum bókmenntir.is.
Ragna Sigurðardóttir tilnefnd til IMPAC bókmenntaverðlaunanna
