Sunnudaginn 27. október verður Bókmenntaborgin Reykjavík sérstakur gestur á Conrad hátíðinni í Kraká, Póllandi. Þar munu gestir hátíðarinnar geta tyllt sér á skáldabekk Bókmenntaborgarinnar og hlustað á upplestur íslenskra ljóða með hjálp snjallsíma. Reykvísk ljóð munu að auki setja svip sinn á Kraká, birtast á auglýsingaskiltum, prýða húsveggi og ljóðskreyttir vagnar munu ferðast á milli borgarhluta. Á hátíðinni verður boðið til íslenskrar bókmenntadagskrár þar sem Ljóðlistarverkefnið ORT stendur fyrir pallborði um þróun íslenskrar ljóðlistar og prósa frá upphafi sagnaritunar á Íslandi til okkar daga. Leitað verður svara við spurningunni hversu mörg skáld fyrirfinnast á Íslandi og hvort það geti verið að þau séu í raun fleiri heldur en íbúatala eyjunnar gefi til kynna. Flutt verða ljóð og sagt frá verkefninu ORT, sem er umfangsmesta kynning á íslenskri ljóðlist í Póllandi og pólskri ljóðlist á Íslandi sem í hefur verið ráðist. Í pallborðinu taka þátt skáldið Eiríkur Örn Norðdahl, Þorgerður Agla Magnúsdóttir frá Miðstöð íslenskra bókmennta, Izabella Kaluta frá Bókmenntamiðstöð Póllands og Ołga Holownia frá verkefninu ORT. Umræðustjóri er Szymon Kloska. Síðar um daginn munu rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Hallgrímur Helgason sitja fyrir svörum og spjalla um verk sín. Yrsa ræðir við Marcin Wilk um glæpasögur sínar um lögfræðinginn Þóru Guðmundsdóttur og Hallgrímur spjallar við Szymon Kloska um nýjustu skáldsögu sína Konan við 1000°. Á Conrad-hátíðinni verður einnig nýtt vegglistaverk afhjúpað við Bohaterów Getta torgið. Vegfarendur munu þar geta barið augum ljóð eftir skáldin Ewu Lipska, Adam Zagajewski, Agnieszku Wolny-Hamkało, Sjón, Óskar Árna Óskarsson, Kristínu Svövu Tómasdóttur og Ingunni Snædal, sem taka öll þátt í ljóðlistarverkefninu ORT. Frekari upplýsingar um Reykjavíkurdaginn í Kraká má finna á heimasíðu Conrad hátíðarinnar.
Reykjavíkurdagur í Kraká
