Að morgni afmælisdags Reykjavíkurborgar þann 18. ágúst undirrituðu Jón Gnarr borgarstjóri og Kristín Steinsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands gjafaafsal, þar sem Reykjavíkurborg gefur Rithöfundasambandi Íslands Gunnarshús að Dyngjuvegi 8 í Reykjavík í tilefni af því að Reykjavík er orðin ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Við sama tækifæri gaf Gunnar Björn Gunnarsson fulltrúi fjölskyldunnar og stjórnarformaður Gunnarsstofnunar Rithöfundasambandinu ljósmyndir úr einkasafni af heimili Gunnars Gunnarssonar og Franziscu Antoniu Josephine Jörgensen konu hans. Pétur Gunnarsson rithöfundur las ljóð Hannesar Péturssonar ,,Í húsi við Dyngjuveg“ og Sigurður Pálsson rithöfundur sagði söguna um fræið bak við tréð eða tilurð þess að borgin keypti húsið á sínum tíma. Gunnarshús er nú miðstöð rúmlega 400 meðlima sambandsins og jafnframt hefur húsið orðið að lifandi minningu um Gunnar Gunnarsson með fjölda viðburða sem varða skáldið og verk hans. Fjöldi erlendra gesta heimsækir húsið ár hvert, ýmist í tengslum við bókmenntahátíðir eða ráðstefnur hvers konar og gistiíbúð fullnýtt. Rithöfundasambandið hefur hugsað vel um húsið sjálft og umhverfi þess og mun áfram leitast við að hafa það opið öllum í bókmenntaborginni Reykjavík og hafa jafnframt í heiðri sögu hússins m.t.t. byggingarlistar og menningarsögu þess. Laugardaginn 6. október n.k. býður Rithöfundasambandið Reykvíkingum öllum og gestum borgarinnar til opins húss í Gunnarshúsi í tilefni gjafarinnar og fyrstu Lestrarhátíðar í Reykjavík. Lesa meira hér.