Skráning er hafin á rithöfundaþingið og vinnustofuna Iceland Writers Retreat sem verður haldin á Íslandi í fyrsta sinn 9.‒13. apríl næstkomandi á Icelandair Hotel Reykjavik Natura. Þar geta rithöfundar og aðrir sem hafa bók í bígerð tekið þátt í námskeiðum og vinnustofum sem þaulreyndir höfundar og ritstjórar sjá um. Ferðalög og ferðasögur verða meginþema þessa fyrsta þings og mun það fara fram á ensku.
Auk námskeiða og vinnustofa fá ráðstefnugestir að kynnast hinum ríka bókmenntaarfi Íslendinga. Þeir munu hitta að máli rithöfundana Einar Kárason, Gerði Kristnýju, Rögnu Sigurðardóttur og Sjón, halda á söguslóðir og njóta sérskipulagðra ferða þar sem þeir kynnast nokkrum helstu náttúruperlum landsins.
Með rithöfundaþinginu bætist nýr og spennandi atburður við þá gróskumiklu menningarstarfsemi sem þegar laðar fjölda fólks til Íslands. Vonir standa til að þingið verði haldið ár hvert héðan í frá.
Skráning fer fram á heimasíðu Iceland Writers Retreat.
Pulitzer-verðlaunahafi á fyrsta íslenska rithöfundaþinginu
Stjórnendur námskeiðanna hafa margir aflað sér frægðar á alþjóðavettvangi fyrir skrif sín. Má þar nefna Geraldine Brooks, handhafa Pulitzer-verðlaunanna, og Susan Orlean sem skrifar fyrir
New Yorker. Upplýsingar um alla stjórnendurna má finna á
heimasíðu þingsins.
Rithöfundaþinginu er ætlað að höfða til þeirra sem vilja þjálfast í ritlist og kynnast um leið sögu, menningu og náttúrufegurð Íslands. Þótt þinginu sé ætlað að laða erlenda gesti til Íslands er heimafólki líka velkomið að sækja það. Sérkjör eru þá í boði, án gistingar og kynningarferða. Jafnframt verður eitt bókakvöld í Norræna húsinu opið almenningi þar sem rithöfundarnir erlendu lesa úr verkum sínum og árita þau.
[caption id="attachment_7947" align="alignnone" width="199"] Geraldine Brooks, Pulitzer verðlaunahafi í bókmenntum.[/caption]
Icelandair og Icelandair Hotels styrkja þingið. Bókmenntaborgin Reykjavík er á meðal stuðningsaðila en það nýtur auk þess velvildar og stuðnings víða. Má þar nefna Mennta- og menningarmálaráðuneytið, GrayLine Iceland, Visit Reykjavík, Miðstöð íslenskra bókmennta, bandaríska sendiráðið á Íslandi og KEX Hostel.
Erica Jacobs Green og Eliza Reid stofnuðu og standa að íslenska rithöfundaþinginu. Erica er frá Bandaríkjunum og sinnir ritstjórn og ritstörfum. Hún bjó á Íslandi frá 2011 fram að júlí 2013. Eliza er frá Kanada. Hún flutti til Íslands árið 2003 og hefur rekið eigið fyrirtæki á sviði markaðskynningar, textaskrifa og viðburðastjórnar síðastliðin níu ár.