Beint í efni

Ritsmiðja fyrir 13-16 ára í Borgarbókasafni

Sköpunarskólinn og Borgarbókasafnið bjóða upp á ókeypis örnámskeið í skapandi skrifum á Barnamenningarhátíð, laugardaginn 27. apríl kl. 13-16. Námskeiðið er ætlað 13-16 ára og fer fram í Kringlusafni í Kringlunni. Á námskeiðinu verður fjallað um sögur, brandara og bíómyndir og þátttakendur fá aðstoð við að móta eigin hugmyndir og koma þeim niður á blað. Hvernig verður saga til? Hvaða saga er merkileg? Á hverju byrjar maður og hvernig endar maður? Er ég fyndnari en ég held? Hef ég eitthvað stórmerkilegt fram að færa - eitthvað sem vill komast út? Leiðbeinandi er Davíð Stefánsson bókmenntafræðingur. Davíð hefur kennt einstaklingum á öllum aldri skapandi skrif á undanförnum árum, m.a. hjá Listaháskólanum, Kvikmyndaskólanum og Myndlistaskólanum í Reykjavík og skrifar þessi misserin námsefni í íslensku fyrir Námsgagnastofnun. Þetta námskeið er unnið með styrk úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur. Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningu á má finna á vef Borgarbókasafns eða hjá Davíð Stefánssyni í síma 864 7200.