Beint í efni

Ritþing Gerðuberg fjallar um verk Hallgríms Helgasonar

Í næsta Ritþingi verður fjallað um Hallgrím Helgason og verk hans. Stjórnandi ritþingsins er Þorgerður E. Sigurðardóttir og spyrlar Páll Valsson og Alda Björk Valdimarsdóttir. Í tilefni ritþingsins mun myndlistarmaðurinn Hallgrímur Helgason sama dag opna sýningu á neðri hæð hússins. Sýninguna nefnir hann Myndveiðitímabilið 2012 og samanstendur hún af málverkum og teikningum, sem eins og titillinn ber með sér eru öll gerð á þessu ári. Á undanförnum árum hefur Hallgrímur einbeitt sér að skrifum skáldsagna en í tilefni ritþings tók hann myndveiðigræjurnar fram á ný. Afraksturinn eru myndir sem listamaðurinn „fangar úr engu” eins og hann segir sjálfur, á meðan klisjan myndi kalla þær „sögur úr sálardjúpinu”. Sem kunnugt er stendur myndveiðitímabilið frá 1. janúar - 1. apríl ár hvert og í ár veiddust myndirnar einkum í innlöndum  þótt viðfangsefnin séu margvísleg. Hér gefur að líta sviðsmyndir af þjóðfélagsástandi, símamyndir af tilfinningum og upphleðslur af ýmsu tagi. Ritþing Gerðubergs hafa verið haldin frá árinu 1999 og eiga nú fastan sess í menningarlífi borgarinnar. Á ritþingum er leitast við að veita persónulega innsýn í feril þekktra rithöfunda með það fyrir augum að skoða framlag þeirra og rifja upp farinn veg. Á þingunum er fólki gefinn kostur á að kynnast persónunni á bak við verkin, viðhorfum, áhrifavöldum og lífshlaupi viðkomandi. Rithöfundurinn situr fyrir svörum tveggja spyrla og stjórnanda. Sjá nánar um Hallgrím  Ragnheiður Gröndal syngur nokkur lög á ritþinginu við kvæði Hallgríms. Strax að loknu Ritþingi opnar sýning Hallgríms „Myndveiðitímabilið“ 2012 á neðri hæð Gerðubergs. Sýningin stendur til 22. júní 2012.