Ensk þýðing skáldsögunnar Rökkurbýsnir eftir Sjón hefur komist í lokaúrval bresku bókmenntaverðlaunanna Independent Foreign Fiction Prize. Bókin kom út á ensku í fyrra hjá bókaforlaginu Telegram, undir titlinum From the Mouth of the Whale í þýðingu Victoriu Cribb, og hefur hlotið afbragðsdóma hjá breskum bókmenntagagnrýnendum. Fimmtán tilnefndar bækur voru tilkynntar í mars síðastliðnum. Nú hefur listinn verið tálgaður niður í sex titla og hafa ekki ómerkari rithöfundar en Haruki Murakami, Amos Oz og Peter Nadas heltst úr lestinni. Meðal annarra rithöfunda sem hafa náð hafa inn í lokaúrvalið auk Sjóns eru Umberto Eco, Judith Hermann og Diego Marani. Verðlaunin eru veitt þýddum skáldverkum sem þykja hafa skarað fram úr á breskum bókamarkaði á liðnu ári. Þau eru einstök að því leyti að höfundurinn og þýðandinn deila hróðrinum jafnt og undirstrika því mikilvægi þýðinga í að brúa bilið milli tungumála og menningarheima. Höfundurinn og þýðandinn sem bera að lokum sigur úr býtum hljóta að launum 5.000 pund hvor. Frekari upplýsingar um verðlaunin má nálgast hér.
Rökkurbýsnir eftir Sjón keppir um IFFP-verðlaunin
