Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og fyrirtækið Reykjavík by Boat bjóða upp á skáldlegar siglingar um Sundin á Menningarnótt. Siglt verður á bátnum Lunda, sem er uppgerður fiskibátur, frá flotbryggjunni við Ingólfsgarð aftan við Hörpu og lítill hringur farinn út að Laugarnesi, meðfram Engey og svo aftur að Hörpu.
Siglingarnar eru fjórar talsins og tekur hver um sig um það bil klukkutíma. Í tveim fyrstu ferðunum verða systkinin Sigrún og Þórarinn Eldjárn í brúnni en þeirra dagskrá er ætluð börnum og fjölskyldum. Síðari tveimur ferðunum stýra skáldsystkinin Sigurbjörg Þrastardóttir og Sigurður Pálsson.
Eins og áður segir verður lagt úr höfn frá flotbryggjunni við Ingólfsgarð aftan við Hörpu. Ekkert kostar í siglinguna og ekki þarf að bóka þátttöku. Lundi tekur 35 farþega og er því um að gera að mæta tímanlega.
Dagskrá:
Ofurlítil dugga
Kl. 15 - 16 og aftur kl. 17 - 18
Sigrún og Þórarinn Eldjárn spjalla og lesa ljóð og sögubrot fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Meðal annars les Sigrún úr óútkominni sögu sinni sem hefst á æsilegri siglingu og Þórarinn flytur sín ástsælu ljóð. Sjónum verður beint að siglingum, hafinu og hafnarborginni Reykjavík.
Börn þurfa að vera í fylgd fullorðinna.
Ljóðasigling
Kl. 19 - 20 og aftur kl. 21 - 22
Skáldin Sigurbjörg Þrastardóttir og Sigurður Pálsson verða í brúnni á bátnum Lunda á stuttri siglingu um Sundin. Þau munu flytja farþegum eigin ljóð og annarra sem snerta bókmenntaborgina Reykjavík og hafið.
Siglingarnar eru hluti af borgarhátíðardagskrá Hörpu á Menningarnótt þar sem hátíðir í borginni verða kynntar. Í október verður Lestrarhátíð í Reykjavík haldin í annað sinn og verður hún að þessu sinni helguð Reykjavíkur- og borgarljóðum. Siglingarnar eru upptaktur að þessari mánaðarlöngu hátíð.