Fimmtudaginn 4. apríl næstkomandi býður IBBY á Íslandi til stærstu sögustundar á landinu, þriðja árið í röð. Tilefnið er alþjóðadagur barnabókarinnar sem er 2. apríl ár hvert. Félagið hefur í ár fengið Friðrik Erlingsson til þess að semja smásögu ætlaða nemendum á öllum stigum grunnskólans, 6-16 ára. 40.000 grunnskólanemar munu hlusta á frumflutning sögunnar Stóra bróðurs samtímis, óháð því hvar þeir eru staddir á landinu eða hvaða kennslustund þeir sitja. Kennarar geta ýmist lesið söguna fyrir nemendur, fengið einhvern úr hópnum til að lesa hana fyrir hina eða valið að hlusta á söguna í útsendingu Rásar I, þar sem Bergur Þór Ingólfsson mun lesa hana. Taki skólarnir höndum saman verður til einstæð upplifun tugþúsunda á sömu stundu. Sögustundin verður fimmtudaginn 4. apríl, svo að skólastarf verði örugglega hafið af fullum krafti eftir páskaleyfið. Sagan verður flutt innan þáttarins „Okkar á milli,“ en Friðrik Erlingsson verður gestur Hönnu G. Sigurðardóttur í þættinum. Lesturinn hefst kl. 9:10 og ætti að taka tæpar 20 mínútur. Upplesturinn verður svo aðgengilegur á vef RÚV að flutningi loknum. Sagan verður send skólastjórum og starfsfólki skólasafnanna í tölvupósti á degi barnabókarinnar, 2. apríl, og þaðan á sagan að komast í hendur kennara. Þannig hefur starfsfólk skólanna hafi tveggja daga tóm til þess að kynna sér Stóra bróður áður en að upplestrinum kemur. Sögunni fylgja tillögur að umræðuspurningum sem kennarar geta nýtt sér eftir því sem hentar.
Sögustund á landsvísu
