Í vor og sumar býður Bókmenntaborgin Reykjavík, í samstarfi við Goethe-stofnun í Danmörku, þýskum rithöfundum, sem valdir eru úr hópi umsækjenda, til sex vikna dvalar í Reykjavík við skriftir og grúsk. Um er að ræða rithöfundana Dirk Schwieger og teymið Eva Kretschmer og Ulrike Olms. Munu höfundarnir koma til með taka þátt í bókmenntaviðburðum og dagskrám, samhliða því að vinna að eigin verkefnum á meðan vist þeirra í borginni stendur. [caption id="attachment_4622" align="alignleft" width="120" caption="Dirk Schwieger. Sjálfsmynd."][/caption] Fyrstur til landsins er Dirk Schwieger, sem mun dvelja í Gunnarshúsi frá 1. maí – 15. júní. Hann er myndasagnahöfundur, fæddur árið 1978 í Frankfurt, og er búsettur í Berlín. Þetta er í annað sinn sem Dirk heimsækir Ísland, en hann kom hingað til lands árið 2002 á námsárum sínum. Á meðan dvöl hans stóð kviknaði hugmynd að verki um vættatrú Íslendinga. Hann nýtti tímann til að kynna sér huldufólk og álfa, tók viðtöl við Íslendinga og viðaði að sér bókum og greinum um efnið. Fyrstu blaðsíður myndasögunnar voru birtar á myndasögusíðunni electrocomics. Listfræðingurinn Rieke C. Harmsen segir að í verkinu skapi Dirk persónur sínar með glöggu auga þjóðfræðingsins, í miðli sem henti viðfangsefninu einkar vel. „Þessar þjóðsagnaverur eru nokkurs konar ósýnileg þjóð,“ segir Dirk, „og hvaða miðill hentar betur til að skrásetja veröld þeirra en myndasagan?“ Dirk hyggst nýta dvölina til að vinna frekar að myndasögunni og kynna sér breyttar aðstæður á Íslandi frá efnahagshruninu 2008. Samhliða rit- og myndstörfum mun hann birta pistla á þýsku um dvöl sína á bloggsíðu Goethe-stofnunar. Grein Rieke C. Harmsen um Dirk má lesa í heild sinni á heimasíðu Goethe-stofnunar. Þetta er í annað sinn sem Bókmenntaborgin og Goethe-stofnun í Danmörku bjóða þýskum rithöfundum til Reykjavíkur. Fyrstu höfundunum sem bauðst starfsdvöl í borginni voru þeir Volker Altwasser og Finn-Ole Heinrich, vorið og sumarið 2012.