Beint í efni

Þýskur gestahöfundur í Reykjavík

Matthias Jügler í Gröndalshúsi

Rithöfundurinn, ritstjórinn og blaðamaðurinn Matthias Jügler er gestur Bókmenntaborgarinnar og Goethe stofnunar í Reykjavík í maí. Hann kynnir verk sín í samtali við Benedikt Hjartarson bókmenntafræðing í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18 sunnudaginn 15. maí kl. 14.

Goethe stofnun í Kaupmannahöfn býður árlega þýskum rithöfundi að dvelja í Reykjavík í mánuð við skrif og skapandi vinnu. Nú í maí er Matthias Jügler í skáldaíbúð Bókmenntaborgarinnar í Gröndalshúsi þar sem hann vinnur að sinni þriðju skáldsögu. Í verkum sínum fæst Matthias m.a. við áhrif þýska alþýðulýðveldisins á líf ungra Þjóðverja í dag. Hann hefur sent frá sér tvö safnrit um kynþáttahyggju og útlendingahatur og tvær skáldsögur. Sú síðari, Die Verlassenen, sem kom út í fyrra vakti mikla athygli. Matthias vinnur einnig sem blaðamaður og ritstjóri en hann hefur m.a. skrifað fyrir Frankfurter Allgemeine Zeitung.

Sunnudaginn 15. maí kynnir Matthias verk sín í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18 í samtali við Benedikt Hjartarson. Viðburðurinn verður á ensku. Þeir munu sérstaklega spjalla um skáldsöguna Die Verlassenen (Hin yfirgefnu) sem fjallar um Johannes sem missir móður sína aðeins fimm ára gamall. Faðir hans hverfur svo þegar drengurinn er á unglingsaldri. Hann kemst síðar að hræðilegum örlögum móðurinnar en endurheimtir aldrei föðurinn og sagan kjarnast um þessa fjarveru. Leitin að föðurnum dregur Johannes til Noregs og þar kemst hann að því að foreldrar hans voru virkir í andspyrnu gegn stjórnvöldum í heimalandinu. Meðal þess sem sagt hefur verið um bókina er að frásögnin sé knýjandi og truflandi og varpi fram spurningum um tímann fyrir og eftir fall Berlínarmúrsins.

Matthias Jügler fæddist 1984 í Halle í Austur-Þýskalandi. Hann nam skandinavísk fræði í Greifwald og Osló og stundaði nám í ritlist í Leipzig. Matthias talar norsku og hefur mikinn áhuga á norrænni menningu. Hann hyggst nota Ísland sem sögusvið að hluta í sögunni sem hann vinnur nú að.

Goethe stofnun í Kaupmannahöfn hefur boðið þýskum höfundum til nokkurra vikna dvalar í Reykjavík um árabil og hefur Bókmenntaborgin tekið á móti þessum gestum og kynnt þeim íslenskt bókmenntalíf og staðið fyrir viðburðum með þeim. Gestirnir nýta dvölina til skapandi vinnu og deila einnig reynslu sinni af verunni á Íslandi með þýskum lesendum á vef Goethe stofnunnar.