Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, voru kynntar í aðalsafni Borgarbókasafnsins í dag, 12. desember. Níu bækur eru tilnefndar, þrjár í hverjum flokki, en verðlaunin eru veitt fyrir fagurbókmenntir, fræðibækur og barna- og unglingabækur. Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningu að þessu sinni: Fagurbókmenntir Kristín Eiríksdóttir: Hvítfeld – fjölskyldusaga. Útgefanfi er JPV Eyrún Ingadóttir: Ljósmóðirin. Útgefandi er Veröld Auður Jónsdóttir: Ósjálfrátt. Útgefandi er Mál og menning Fræðibækur Helga Gottfreðsdóttir og Herdís Sveinsdóttir (ritstjórar): Við góða heilsu? Konur og nútímaheilbrigði í nútímasamfélagi. Útgefandi er Háskólaútgáfan Steinunn Kristjánsdóttir: Sagan af Klaustrinu á Skriðu. Útgefandi Sögufélagið Guðrún Sveinbjarnardóttir: Reykholt: Archaeological Investigations at a high status farm in Western Iceland. Útgefandi er Þjóðminjasafn Íslands Barna- og unglingabækur Anna Heiða Pálsdóttir: Mitt eigið Harmagedón. Útgefandi er Salka Kristín Helga Gunnarsdóttir: Grímsævintýri. Útgefandi er Mál og menning Þórdís Gísladóttir: Randalín og Mundi. Útgefandi er Bjartur Í dómnefndum sitja þær Sigríður Stefánsdóttir, þjóðfélagsfræðingur og verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur og forstöðumaður Blindrabókasafnsins og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, bókmenntafræðingur (fagurbókmenntir), Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Guðríðarkirkju og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands (fræðibækur), Helga Margrét Ferdinandsdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning, Líf Magneudóttir, B.Ed. og meistaranemi í íslensku og Brynhildur Björnsdóttir, blaðamaður (barna- og unglingabækur). Rökstuðningur dómnefnda: Fagurbókmenntir: Kristín Eiríksdóttir: Hvítfeld – fjölskyldusaga Hvítfeld – fjölskyldusaga segir frá Jennu Hvítfeld, ungri og dularfullri konu sem flytur heim frá Bandaríkjunum eftir lát yngri systur sinnar. Fljótt kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist og Jenna og fjölskylda hennar búa öll yfir leyndarmálum sem þau fela á bak við lygar og grímur. Sagan er vönduð, vel heppnuð og sérlega skemmtileg. Uppbyggingin er snjöll og persónurnar ljóslifandi. Stíllinn og textinn eru hnitmiðaðir og táldraga lesandann. Eftirminnileg fyrsta skáldsaga höfundar sem vefur flókna örlagafléttu og afhjúpar að lokum skelfileg fjölskylduleyndarmál. Eyrún Ingadótrir: Ljósmóðirin Ljósmóðirin er söguleg skáldsaga sem segir sögu Þórdísar Símonardóttur, ljósmóður á Eyrarbakka um aldamótin 1900. Sagan er vel samin og skemmtileg og segir frá konu sem reis upp gegn aðstæðum í samfélaginu og barðist fyrir eigin réttindum og réttindum annarra. Í verkinu renna saman saga og skáldskapur og úr verður eftirminnileg frásögn sem dregur upp sterka mynd af lífi og kjörum ólíks fólks um aldamótin 1900 og lýsir vel aðstæðum og viðhorfum til einnar fyrstu starfsstéttar kvenna. Persónusköpun er lífleg og sannfærandi, sagan er efnismikil og frásögn höfundar myndræn og lifandi Auður Jónsdóttir: Ósjálfrátt Ósjálfrátt er skáldsaga þar sem veruleiki og skáldskapur haldast í hendur. Sagan segir frá Eyju sem gerir upp við fjölskyldu sína og fortíð og lærir að vera skáld. Þroskasaga hennar er áhugaverð og óvenjuleg en hana skreyta og undirstrika margar litríkar persónur. Í verkinu er lifandi lýsing á þörfinni fyrir að skrifa og hvernig skáld verður til. Stíllinn er áreynslulaus og léttur en með þungri undiröldu, fullur af lágstemmdri kímni svo úr verður einskonar gleðilegur harmleikur. Fræðibækur: Helga Gottfreðsdóttir og Herdís Sveinsdóttir (ritstj.): Við góða heilsu? Konur og nútímaheilbrigði í nútímasamfélagi. Hér er fjallað á hispurslausan en jafnframt nærfærinn hátt um persónuleg og oft viðkvæm mál tengd heilsu kvenna. Bókin spannar vítt svið og ólík efni, m.a. aðgerðir á skapabörmum, ófrjósemi, staðgöngumæðrun og sanngjarna skiptingu ábyrgðar og umönnun eldri borgara. Hún er safn 15 kafla sem skiptast í fjóra hluta, um blæðingar og ímynd kvenna, barneignir, samfélagslega þætti tengda heilsu og loks er fjallað um tiltekna sjúkdóma. Hverjum hluta er fylgt úr hlaði með inngangi sem jafnframt tengir hlutana saman. Í bókinni mætast ólíkar nálganir á heildstæðan hátt og álitamál sem oft eru aðeins talin viðfangsefni heilbrigðisvísinda eru sett í siðferðilegt og félagslegt samhengi og krufin út frá þverfaglegri kynjafræðilegri nálgun. Höfundar eru viðurkenndar fræðakonur á sínu sviði, textinn er lipur og skýr og til þess fallinn að höfða til breiðs hóps lesenda með áhuga á heilsu kvenna. Steinunn Kristjánsdóttir: Sagan af Klaustrinu á Skriðu Í bókinni er sagt uppgreftri klaustursins á Skriðu í Fljótsdal. Steinunn tekur lesandann með sér í ferðalag í gegnum rannsóknirnar og spinnur úr því spennandi sögu með óvæntum uppgötvunum þar sem einstakir þættir rannsóknarinnar raðast smám saman í heildstæða mynd. Steinunn varpar ljósi á líf þeirra sem lifðu og dóu í klaustrinu, hún veltir fyrir sér hlutskipti þeirra og þjáningum af næmni og á persónulegan hátt sem þó verður aldrei of rúmfrekur í frásögninni. Bókin er skrifuð fyrir almenning og Steinunn leggur sig fram um að útskýra hugtök og aðferðir og þær takmarkanir sem túlkun fornleifarannsókna eru settar. Bókin virkjar ímyndunarafl lesandans og er prýtt fjölda ljósmynda, korta og skýringarmynda. Uppgröfturinn á Skriðu dýpkaði skilning á hlutverki hins íslenska miðaldaklausturs og fræðilegt framlag rannsóknarinnar því mikið. Bókin hefur þó einnig mikið gildi sem aðgengilegt og læsilegt rit um starf fornleifafræðinga og spennandi rannsókn. Guðrún Sveinbjarnardóttir: Reykholt: Archaeological Investigations at a high status farm in Western Iceland Bókin er fræðirit þar sem dregnar eru saman yfirgripsmiklar fornleifarannsóknir á Reykholti í Borgarfirði, höfðingjasetri um margra alda skeið. Stærsti hluti ritsins skiptist í kafla þar sem lýst er á nákvæman hátt húsaskipan, byggingum í aldursröð sem spannar frá árinu 1000 til 19. aldar, og svo fjölda muna, leifum dýra, plantna og frjókornagreiningum. Fremst í ritinu er umhverfi og sögu Reykholts lýst í stuttum kafla og síðasti kafli bókarinnar er greinagóð og vel unnin samantekt á helstu niðurstöðum á ensku og íslensku. Þá fylgja bókinni 14 viðaukar sem dýpka umfjöllun enn frekar fyrir sérfræðinga á sviðinu. Meginstyrkur bókarinnar liggur í ítarlegum lýsingum á hinum víðfeðmu og margþættu rannsóknum sem Reykholtsverkefnið náði yfir. Bókin gerir ráð fyrir nokkurri grunnþekkingu á sviði fornleifafræði, þrátt fyrir að sumir kaflar ættu að geta höfða til víðari hóps. Mikill fjöldi korta, ljósmynda og annara skýringamynda prýða bókina og má nefna sérstaklega gamlar ljósmyndir og málverk fyrri tíma sem færa viðfangsefnið enn nær lesandanum. Barna- og unglingabækur: Kristínn Helga Gunnarsdóttir: Grímsævintýri Grímsævintýri er dýrasaga þar sem lesendurnir fylgjast með lífi hunds frá vöggu til grafar út frá sjónarhóli hamingjudýrsins og fuglaveiðihundsins Gríms Fífils. Viðfangsefni Grímsævintýra er vinátta manna og dýra. Lesendur kynnast veröld Gríms Fífils sem snýst um lykt, mat og samband hans við mannfólkið, sem elskar hann ýmist eða umber. Það er frásagnarmáti bókarinnar sem gerir hana eftirminnilega og sérstaklega skemmtilega. Í togstreitunni á milli hundmiðjaðrar frásagnar Gríms Fífils á atvikum í lífi sínu og skilnings lesandans á því sem raunverulega átti sér stað lifna æviminningarnar við og verða að ævintýrum. Anna Heiða Pálsdóttir: Mitt eigið Harmagedón Mitt eigið Harmagedón er þroskasaga fimmtán ára stúlku sem tekst á við efasemdir um þá heimsmynd sem haldið hefur verið að henni frá bernsku. Frásögnin á sér stað á nokkrum sumarvikum og segir frá Dagbjörtu sem er uppalin í samfélagi Votta Jehóva á Íslandi. Eftir að hún kynnist náið krökkum sem eru ekki í söfnuðinum tekur hún að endurskoða fortíðina, samband sitt við föður sinn og að lokum þá framtíð sem aðrir höfðu skipulagt fyrir hana og henni hafði alltaf fundist sjálfsagt að af yrði. Lýsingar á innri togstreitu Dagbjartar og flókinni fjölskyldustöðu eru einkar vel útfærðar og persónulýsing hennar trúverðug. Bók sem allir unglingar ættu að geta fundið samhljóm í varðandi það að taka ákvarðanir, standa með sjálfum sér og bera ábyrgð á eigin lífi. Þórdís Gísladóttir: Randalín og Mundi Reykvískt sumar, uppátækjasamir krakkar, litskrúðugt mann- og dýralíf og ævintýri hversdagslífsins eru m.a. viðfangsefni Þórdísar Gísladóttur í bókinni um fjörugu vinina Randalín og Munda. Þetta er bráðskemmtileg og lipurlega skrifuð saga með spaugilegum myndum, skemmtilegum persónum og aðstæðum sem vekja kátínu og gleði. Frumraun Þórdísar í barnabókaskrifum er einstaklega vel heppnuð, saga sem skemmtir bæði fullorðnum og börnum.
Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna
