Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur tilkynnt hvaða tíu höfundar eru tilnefndir til Viðurkenningar Hagþenkis 2012. Verðlaunaupphæðin er kr. 1.000.000 og tilkynnt verður hver hlýtur viðurkenninguna í mars, við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni.
Viðurkenningaráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum, sem hefur fundað síðan um miðjan október og kynnt sér útgáfu ársins 2012. Í ráðinu sitja: Ólafur K. Nielsen náttúrufræðingur og formaður ráðsins, Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, Fanney Þórsdóttir lektor í sálfræðideild HÍ, Haraldur Ólafsson mannfræðingur. Verkefnastjóri er Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis.
Eftirfarandi höfundar og bækur eru tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis 2012:
• Árni Kristjánsson
Innra augað. Sálfræði hugar, heila og skynjunar. Háskólaútgáfan.
Umsögn viðurkenningaráðs: Vandað fræðirit um hlutverk heilastarfssemi í sjónskynjun sem nýtist jafnt nemendum sem almennum lesendum.
• Ásta Bergljót Stefánsdóttir og Guðrún Pétursdóttir
Andlitsmeðferð og efnafræði snyrtivara. Iðnú bókaútgáfa.
Umsögn viðurkenningaráðs: Tímabært námsefni þar sem fjallað er um eitt meginsvið snyrtifræðinnar á skýran hátt.
• Dr. Gunni
Stuð vors lands. Saga dægurtónlistar á Íslandi. Sögur útgáfa.
Umsögn viðurkenningaráðs: Verkið er merkilegt framlag í máli og myndum um þátt dægurtónlistar í menningarlífi Íslendinga.
• Gunnar Þór Bjarnason
Upp með fánann. Baráttan um uppkastið 1908 og sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Mál og menning.
Umsögn viðurkenningaráðs: Aðgengileg umfjöllun um pólitískt umrót ársins 1908 og ólík sjónarmið um tengsl Íslands og Danmerkur.
• Gunnar F. Guðmundsson
Pater Jón Sveinsson. Nonni. Bókaútgáfan Opna.
Umsögn viðurkenningaráðs: Glæsileg og vönduð ævisaga sem varpar nýju ljósi á örlög unglings sem var sendur út í heim til að nema guðfræði og varð víðlesnasti rithöfundur Íslendinga fyrr og síðar.
• Inga Elsa Bergþórsdóttir og Gísli Egill Hrafnsson
Eldað og bakað í ofninum heima. Góður matur – gott líf. Vaka-Helgafell
Umsögn viðurkenningaráðs: einstaklega falleg og vel unnin bók um mat og matargerð, leiðarvísir að betra lífi.
• Jón Ólafsson
Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu. JPV útgáfa.
Umsögn viðurkenningaráðs: Áhrifamikil og gagnrýnin greining á kommúnismanum og Gúlagi Sovétríkjanna sem afhjúpar varnarleysi hins almenna borgara.
• Sigrún Helgadóttir, Freydís Kristjánsdóttir og Guðmundur Ó. Ingvarsson
Víkingaöld. Árin 800-1050. Námsgagnastofnun.
Umsögn viðurkenningaráðs: Auðlesinn texti og lýsandi myndefni fléttast vel saman og er góð kynning á margþættu samfélagi víkingaaldarinnar.
• Sigurður Reynir Gíslason
Kolefnishringrásin. Hið íslenska bókmenntafélag.
Umsögn viðurkenningaráðs: Eitt mikilvægasta umhverfisvandamál samtímans, hlýnun jarðar af mannavöldum, krufið til mergjar.
• Steinunn Kristjánsdóttir
Sagan af klaustrinu á Skriðu. Sögufélag.
Umsögn viðurkenningaráðs: Í verkinu er rakin aðdragandi og framvinda merkilegs forleifauppgraftar og fléttað inn sögulegum fróðleik og tilraunum til túlkunar svo úr verður spennandi saga studd góðum ljósmyndum.