Beint í efni

Ullað (upp) á íslenska tungu

Nýyrðaboðhlaup Borgarbókasafnsins og Sköpunarskólans. Föstudaginn 12. október 2012 kl. 10:00 ætla 60 unglingar úr 10. bekk að hitta Davíð Stefánsson ljóðskáld í aðalsafni Borgarbókasafns Reykjavíkur í Tryggvagötu og leggja drög að framtíð íslenskrar tungu með því að hlusta, tala, skapa - og hlaupa. Um viðburðinn: Hversu mörg nýyrði hefur þú smíðað á ævinni? Ekkert? Eitt? Af hverju ekki þúsund? Íslenskan er svo heilög að við þorum ekki að leika okkur með hana, en til að bjarga henni frá eilífri glötun ætlum við þess í stað að segja og hugsa: „Íslenskan er svo heilög að við eigum að leika okkur með hana. Við eigum að eiga íslenskuna.“ Á þessum nótum ætlar Davíð Stefánsson að spjalla við unglingana úr Hagaskóla og Hlíðaskóla, einkum um nýyrðasmíð í tengslum við skáldsöguna Vögguvísu eftir Elías Mar, en Elías safnaði fjölmörgum orðum sem einu sinni voru framandi nýyrði en okkur er tamt að nota í dag. Þetta safn sem Elías tók saman má sjá í nýrri útgáfu Vögguvísu sem kom út í haust. Davíð spjallar við þátttakendur um það að eiga tungumálið og síðan tekur hópurinn að sér að búa til nýyrði fyrir nokkur „ónýt“ orð sem þarf að bjarga frá glötun hið snarasta Viðburðurinn endar á Nýyrðaboðhlaupinu 2012 þar sem sviti, hamagangur og hugmyndaauðgi fara saman. Gjörningurinn er hluti af Lestrarhátíð í Reykjavík og skipulagður af Borgarbókasafni og Sköpunarskólanum í samvinnu við Bókmenntaborgina. Verkefnið er styrkt af Forvarnarsjóði Reykjavíkur.