Beint í efni

Unga fólkið verðlaunað fyrir tök á tungunni

Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík

Það var hátíðleg stund þegar íslenskuverðlaunin voru afhent í Norðurljósasal Hörpu í dag, á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember 2013. Þar voru saman komnir stoltir verðlaunahafar, foreldrar, afar og ömmur. Frú Vigdís Finnbogadóttir afhenti verðlaunin en þau eru veitt grunnskólanemum fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Nemendurnir sem tóku  við verðlaunum að þessu sinni hafa meðal annars sýnt hugmyndaauðgi, skemmtileg stílbrögð og frjó efnistök í ritun og munnlegri tjáningu. Meðal verðlaunahafa voru líka nemendur sem hafa með elju og einbeitni náð framúrskarandi árangri í íslensku sem öðru tungumáli. Vigdís minnti á það í ávarpi sínu hvað íslensk þjóð ætti afmælisbarni dagsins, Jónasi Hallgrímssyni, mikið að þakka, ekki síst fyrir nýorðasmíði, og brýndi hún unga sem aldna til að varast fljótmælgina og leggja rækt við skýrmælgi og fallegt mál. Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, minnti á þau góðu tíðindi að nemendur af báðum kynjum í grunnskólum borgarinnar sýna merkjanlega meiri áhuga á lestri en í öðrum sveitarfélögum og að nýafstaðin Lestrarhátíð hefði jafnframt skilað sér í auknum yndislestri, s.s. í Austurbæjarskóla. Við verðlaunaathöfnina flutti hornkvartett úr Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts nokkur lög, svo og yngri sveit Tónlistarskólans í Grafarvogi. Kynnir var Margrét Kristín Blöndal. Þetta er í sjöunda sinn að íslenskuverðlaunin eru veitt. Handhafar þeirra eru á aldrinum 8- 15 ára; ljóðskáld, sögusmiðir, leikritaskáld, ræðuskörungar og tvítyngdir lestrar- og námshestar með lifandi áhuga á íslensku máli. Allir verðlaunahafar fengu til eignar veglegan verðlaunagrip, Þröstinn góða, sem hannaður er af Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur. Markmið íslenskuverðlaunanna er að hvetja nemendur til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs og vekja þau til vitundar um auðinn í íslenskri tungu. Sjá yfirlit yfir handhafa íslenskuverðlauna unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík árið 2013 en þar má einnig sjá fyrir hvað hver nemandi er verðlaunaður.