Alþjóðaþing PEN og Bókmenntahátíð í Reykjavík, 9.-15. september
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Bókmenntahátíðin í Reykjavík auglýsa eftir sjálfboðaliðum sem vilja aðstoða við stórviðburð á sviði bókmennta og mannréttindamála sem fram fer í Reykjavík vikuna 9.-15. september 2013.
Í haust mun heimsþing
PEN International – alþjóðasamtaka rithöfunda, útgefenda og blaðamanna sem standa vörð um tjáningarfrelsið – verða haldið í Reykjavík. Á sama tíma hefst
Bókmenntahátíðin í Reykjavík og munu dagskrár þings og hátíðar skarast í sameiginlegum viðburðum.
Von er á fjölda gesta og rithöfunda á þingið og hátíðina. Verkefnin verða fjölbreytt og samhliða starfinu munu sjálfboðaliðar fá einstakt tækifæri til að kynnast alþjóðlegu hátíðar- og ráðstefnuhaldi. Sjálfboðaliðar munu fá aðgang að dagskrám og móttökum PEN og Bókmenntahátíðar. Þeir sem ljá okkur krafta sína fá einnig frímiða á bókaball Bókmenntahátíðarinnar og eiga því möguleika á að bjóða heimsfrægum rithöfundum í dans.
Góð kunnátta í frönsku eða spænsku er kostur, en ekki skilyrði.
Áhugasamir geta sent umsókn á
bokmenntaborgin@reykjavik.is merkta „sjálfboðaliðar“ í efnislýsingu, með upplýsingum um aldur, nám, fyrri störf og áhugamál. Nálgast má frekari upplýsingar með því að senda fyrirspurn á sama netfang.