Beint í efni

Vinningshafi í sumarlestri

Miðvikudaginn 5. september var dregið úr nöfnum allra þeirra sem tóku þátt í sumarlestri Borgarbókasafns og Reykjavíkur Bókmenntaborgar Unesco. Aðalverðlaunin, vandað reiðhjól frá Erninum, hlaut Lára Björk Birgisdóttir, 12 ára og sótti hún það í Gerðubergssafn. Ýmis önnur verðlaun verða veitt í söfnunum næstu daga. Krakkar á öllum aldri gátu verið með í sumarlestrinum og þátttakan fólst einfaldlega í því að koma í eitthvert af söfnum Borgarbókasafns og fá bók að láni. Í hverri heimsókn fengu krakkarnir blað í formi sólargeisla sem þau skráðu á nafn bókarinnar sem þau lásu ásamt persónulegum upplýsingum. Miðunum var síðan safnað saman á lestrarsól sem skein æ skærar eftir því sem á leið sumarið, en hennar gætti skáldfákurinn Sleipnir. Vikulega var nafn eins þátttakanda dregið út og fékk hann bók að gjöf frá Forlaginu og mynd og viðtal við viðkomandi lestrarhest birtist á krakkasíðu Fréttablaðsins. Að sumarlestrinum stóðu auk Borgarbókasafns og Bókmenntaborgarinnar Forlagið, Fréttablaðið og reiðhjólaverslunin Örninn.   Nokkur hundruð krakkar tóku þátt í sumarlestrinum í ár. Hægt var að taka þátt í öllum sex söfnum Borgarbókasafns: aðalsafni í Tryggvagötu 15, Ársafni í Hraunbæ 119, Foldasafni í Grafarvogskirkju við Fjörgyn, Gerðubergssafni í Gerðubergi 3-5, Kringlusafni sem er til húsa í tengibyggingu milli Kringlunnar og Borgarleikhússins og í Sólheimasafni, Sólheimum 27.