Beint í efni

Garðarshólmi, Jarðið okkur og Ókei bæ tvö

Nú er ekki liðið ár síðan ég skrifaði um þrjár nýjustu bækur Hugleiks Dagssonar, sem þá voru Eineygði kötturinn kisi og leyndarmálið, Kaupið okkur og Ókei bæ. Í þetta sinn eru það bækurnar Garðarshólmi (Já, 2008), Jarðið okkur og Ókei bæ tvö (báðar JPV, 2008) sem um ræðir. Ókei bæ tvö kom út fyrr á þessu ári og Garðarshólmi birtist á síðum símaskrárinnar í ár - sem væri umræðuefni út af fyrir sig - en Jarðið okkur kom út núna í haust og verður síðasta okkur-bókin ef marka má yfirlýsingar höfundar.

Það má segja að það sé fagnaðarefni að nú þegar þessi þau (eða við) sem ,,okkur" vísar til hafa verið fermd, keypt, elskuð og drepin; þeim bjargað, fylgt og riðið, þá séu þau loksins jörðuð. Það er varla hægt að segja að Hugleikur sé farinn að teygja lopann: Aðeins örfáar skrítlur hafa verið sérstaklega eftirminnilegar í sjálfum sér og því kæmi það varla illa við mann þó sömu brandararnir væru margnýttir. Það er miklu frekar lestur bókanna í heild sinni sem hefur gert þær lifandi í minningunni, sú brenglaða og mátulega flippaða heimssýn sem þar kemur fyrir og hversu fast þær sækja að ganga fram af manni. En ef maður býst fyrirfram við því að eitthvað gangi fram af manni, er þá orrustan þegar töpuð? Ég hefði fyrir mína parta kátur flett fleiri okkur-bókum en ég kann hins vegar að meta það að klippt sé á línuna áður en í óefni er komið.

Þessari síðustu okkur-bók er þá slaufað á viðeigandi máta, en á síðustu síðunum leysast skrítlurnar upp í losaralegt krabb og samhengislaus fúkyrði. Dauflegasta og fyrirsjáanlegasta gagnrýni sem hægt er að hugsa sér á hendur Hugleiki og okkur-bókunum er sú að þar séu eintómir illa teiknaðir spýtukarlar með ljótan munnsöfnuð, en á þessum lokasíðum má sjá hvernig skrítlurnar litu út ef það væri í raun engin hugsun á bakvið þær og engin vinna lögð í rammana. Eða er það hér sem þráðurinn trosnar í sundur, hugurinn hættir að starfa en formið þraukar nokkrar síður í viðbót? Er höfundurinn kominn með ógeð og endanlega hættur að teikna okkur? Þá er greftrunin náttúrulega eina ráðið og viðeigandi lokapunktur á syrpunni.

Það er vitaskuld ekki hægt að tala um neinn söguþráð í Jarðið okkur og atburðarásin sem bindur saman fyrri helming Ókei bæ tvö kallar ekki beint á samantekt. Það mætti líkja henni við sketsagrín á borð við Monty Python's Flying Circus eða Mr. Show, að því leyti að einstakar ,,senur" eru tengdar saman með hæfilega kjánalegum hætti þannig að ein rekur aðra án þess að hægt sé að anda á milli. Þannig eru lesendur leiddir ofan úr geimnum niður á Risaeðlu-jörð, þaðan í sjónvarpsþáttinn Þegiðu tík, því næst á ritstjórnarfund með höfundi bókarinnar, inn á litla hraun og loks til Helvítis. Síðari helmingur bókarinnar er svo aftur samansafn af styttra efni, og henni lýkur á groddaralegri skopstælingu á tómstundahorni tímarita eða krossgátublaða. Hvortveggja er upp og ofan en bókin í heild er þéttari en Ókei bæ númer eitt.

Báðar Ókei bæ bækurnar eru samkurl af hinu og þessu sem hægt er að hræra saman í bók, báðar eru einskonar bastarðar sem bjóða hvorki upp á taktfestu einrömmunganna né persónusköpun og sögusvið lengri myndasagna. En þær eru allt annað en leiðinlegar. Fyrri bókinni er það til vansa að þar virðist engu hafa verið fleygt, að allt sem kæmist fyrir á síðunum hefði farið í prent. Ókei bæ tvö kann að fylgja sömu hugmyndafræði en hún virkar a.m.k. ekki þannig. Framsetningin er einbeittari og allsgáðari, auk þess sem brotið er mun þægilegra. Dýralýsingarnar, sem eru helsti dragbítur Ókei bæ eitt, birtast hér aftur og eru lýsandi fyrir muninn á bókunum tveim: Sneggri og betur uppsettar, maður fær á tilfinninguna að hér sé verið að gera eitthvað annað og meira en að fylla upp í eyðurnar. Vel að verki staðið.

Í Garðarshólma segir frá Knúti sem er sendur í sveit til Úlfs á bænum Logni rétt á meðan foreldrar hans gera klárt fyrir heimsókn innlit/útlit heima í Reykjavík. Hann vinnur á bænum í nokkra daga, spilar tölvuleiki og horfir á DVD með hálf-tröllskessunni Hrafnhildi. Þegar mamma hans sækir hann aftur til Reykjavíkur kynnumst við Uglu sem kemur til Reykjavíkur til að verða söngkona og gengur að lokum til liðs við dauðarokkshljómsveitina Éljúðin. Þegar jólakötturinn rís upp úr sænum og fer að leita Knút uppi flýja þau Ugla í sveitina, rekast þar á villikýr og búálfa og finna Mjölni í týndum pýramída.

Það er freistandi að lýsa Garðarshólma sem annaðhvort Hollywoodmynd sem gerist í íslenskum ævintýraveruleika, eða þá sem íslensku ævintýri sem gegnsýrt er af bandarískum poppkúltúr, en þessir fletir renna fyrirhafnarlaust saman í sögunni. Sem dæmi má nefna að skógarhögg landnámsmanna útvegar byggingarefni falinna pýramída sem minna óneitanlega á Alien Vs. Predator, og jólaköttur Hugleiks er einhverskonar blanda af þjóðsögunni, Godzilla og Tortímandanum -- hann gengur himinhár á land upp úr Reykjavíkurhöfn frekar en neðan úr fjöllum og móðir Knúts endurtekur lýsingu Söru Connor á T-800 orðrétt.

Hér sprettur húmorinn ekki upp úr neinskonar menningarárekstrum heldur frekar því hversu vel þessir tveir heimar ganga saman. Þar er helst og best að nefna séra Sæmund, fósturföður Hrafnhildar. Hann flýgur um á kústi og ,,keppir við Kölska" en er líka vel að sér í íslensku dauðarokki og tölvuleikjakvikmyndum Uwe Boll, og sækir galdraþulur á internetið. Þetta er absúrd Ísland sem rúmar allt í senn létta þjóðfélagsádeilu, fantasísk óargadýr og poppkúltur-nördahúmor sem vísar bæði í íslenskt sjónvarp og bandarískt bíó. Tónninn er í raun sá sami og lesendur þekkja úr bókunum um eineygða köttinn Kisa, munurinn er kannski helst sá að Garðarshólmi leyfir sér ekki sama groddaskap og Kisi.

Við lestur Garðarshólma flettir maður í gegnum mestallt Ísland. Sagan gerist á síðum 241-1299 í símaskránni 2008 og nýtir form og liti skrárinnar á skemmtilegan hátt: Nykurinn er símaskrár-grænn og villikýrin símaskrár-rauð, sem gefur þeim sérkennilegt útlit í þessum svarthvíta heimi, ekki síður en það hvernig þau eru teiknuð. Og sagan er rúmlega hálfnuð þegar ramminn, sem hefur þangað til verið á stærð við greiðslukort, stækkar skyndilega upp í hálfa símaskrár-síðu og sýnir ógurlega stóran jólakött rísa upp úr sjónum: þetta er uppsláttarsíðan að hætti símaskrárinnar og sérstaklega vel heppnað augnablik í sögunni.

Í formála sínum að Garðarshólma segist Hugleikur hafa skellt allskonar séríslenskum hráefnum í pott og látið malla. Þar hefur ekki mátt vanta Laxness, en Ugla, sem kemur utan af landi til Reykjavíkur að leggja stund á tónlist, á sér augljósa fyrirmynd í Atómstöðinni. Vísunin nær reyndar ekki mikið lengra en það, en þó er spennandi að teygja sig eftir frekari hliðstæðum og þá helst þeirri að í báðum sögunum er fjallað um það hvernig beri að selja Ísland. Hér fyrir langa löngu í kaldastríðs-skáldskap var rætt um það að selja landið bandarísku ríkisvaldi en nú í tuttugustu og fyrstu aldar fjölmenningarsamfélagi vilja skáldaðir alþingismenn selja náttúruna og menningararfinn til þess að ,,boosta túrismann hérna eins og moðerfokker.” Hugleiki hefur fallið vel að vísa til nýliðinna atburða í bókum sínum (svo sem hvalveiða og fjölmiðlafrumvarps, nú síðast yfirmáta þreytandi dægurlags í Jarðið okkur) og kosið konkret núið í stað óljósra hugmynda um eilífð. Það er því varla hægt að hugsa sér betri sögumann í símaskrána, sem endurnýjast árlega með breyttu landslagi, og bara hægt að vona að hann haldi áfram á næsta ári með Garðarshólma tvö þúsund og níu.

Björn Unnar Valsson, nóvember 2008