Það var svo kvíðvænlegt að þurfa að verða kona. Þær lifðu svo leiðinlegu lífi þegar þær voru giftar og komnar með börn. Samt fylgdi tilhugsuninni um að verða kona einhver kitlandi spenna. Hún mundi þá ráða sér sjálf, ráða yfir líkama sínum, þyrfti ekki að vera á nálum út af Elísabetu þótt hún kæmi seint heim. Þótt hún hefði sofið hjá einhverjum. En þá gæti hún orðið ólétt og það væri hryllilegt. (56)
I
Þar sem tíðarandalýsingar og þroskasögur kvenna mætast, eða öllu heldur rekast á, þar er heimavöllur Kristínar Mörju Baldursdóttur. Hún birtist fyrst á þessum velli með kitlandi leik- og frásagnargleðina í Mávahlátri og á honum vann hún sinn stærsta sigur til þessa með sögubálkinum um Karítas. Gata mæðranna stendur líklega nær frumrauninni en stórvirkinu bæði að umfangi og nálgun, en er þó fyrst og fremst engu lík nema sjálfri sér í höfundarverkinu. Sérkennileg um margt og felur óræðni og dulúð bak við lágstemmdan stíl og hæga atburðarás sem lengst af er með eindæmum hversdagsleg. Gata mæðranna virðist á yfirborðinu vera hreinræktað raunsæi.
Sprungurnar í raunsæinu eru samt harla fljótar að koma í ljós. Gætu jafnvel virkað sem byggingagallar ef lesandinn heldur staðfastlega við þann útgangspunkt að hér sé ætlunin að lýsa raunveruleikanum eins og hann kemur klæddur til dyranna. Er stefnuleysi Marínar, í lífinu almennt, og húsnæðisleitinni sem er helsta límið í framvindu fyrri hlutans, sannfærandi persónueinkenni á ungri stúlku sem er góðum gáfum gædd og veit að baklandið hennar er veikt? Hvernig stendur á því að sumar persónurnar bera nöfn, bæði þegar sögumaður hefur orðið og þegar persónurnar tala, og aðrar eru bara „mamma óþekku stelpnanna“, „kona básúnuleikarans“ eða „okurlánarinn“. Og í ljósi þess hve þröngur heimur götunnar er, hvað eiga viðbrögð Marínar að þýða þegar „fráskilda konan“ ávarpar hana með nafni, og skellir útidyrahurðinni á nefið í miðri fyrirspurn um herbergi til leigu:
Marín stóð eins og þvara fyrir utan. Marín litla, hafði konan sagt. Henni fannst eins og talað hefði verið niður til sín. Svo datt henni annað í hug. Hvernig í ósköpunum hafði konan vitað hvað hún hét. (132)
Lesandinn fer fljótlega að svipast um eftir öðrum skilningi en hinum bókstaflega.
II
Sögusvið Götu mæðranna er gata á höfuðborgarsvæðinu á sjöunda áratug síðustu aldar. Þar er fjölskrúðugt mannlíf, mögulega fjölskrúðugra en strangasta samfélagsraunsæi myndi leyfa, frá ríkum til fátækra, siðprúðra til vægast sagt vafasamra.
Marín, foreldralaus stúlka að norðan, býr hjá fjölskyldu Elísabetar systur sinnar og fjölskyldu hennar meðan hún klárar menntaskólann, en snemma bókar er henni tilkynnt að hún verði ekki undir verndarvæng Elísabetar eftir útskrift. Hún þurfi að finna sér herbergi til leigu, og fulla vinnu í stað þess að selja miða í bíóinu með skólanum og létta undir með húsverkin hjá Elísabetu og Svenna. Marín hefst handa, en sækist leitin illa. Hún vill hvergi annarsstaðar vera en í götunni „sinni“, og þar eru laus herbergi langt í frá á hverju strái.
Það væri synd að segja að leit Marínar að samastað í tilverunni sé markviss. Henni finnst tilhugsunin um barneignir og hjónaband „hryllileg“ og langar ekkert mikið í þau fáu störf sem bjóðast stúdínum sem kunna ekki vélritun, en er síður en svo upptekin af því að velja sér farveg sem hún er sáttari við. Hún mátar sig lítt við námsbrautir Háskólans, og þó hún deili myndlistarhæfileikum með Karítas er engin köllun í þá átt að ónáða hana þar sem hún situr með blöðin sín í miðasölulúgunni. Það er helst að fatahönnun og formskynjun henni tengd leysi hæfileika Marínar úr læðingi, og þegar henni býðst lærlingsstaða við tískuhús í París kemst blóðið aðeins á hreyfingu. En það reynist óljósara og óvissara tilboð en það virtist í fyrstu, auk þess sem óvæntar vendingar í fjölskyldulífinu neyða Marín til að endurskoða allar sínar áætlanir undir lok bókarinnar. Jafnvel þar eru viðbrögð hennar ekki mjög afgerandi.
Afstöðuleysið birtist líka í ástalífinu. Marín nýtur þess að láta sig dreyma um hinn fagra, ríka og ósnertanlega Sturlu í húsinu á móti en sálufélagi hennar, ef það er rétta orðið, er ólíkindatólið Kristófer. Samband þeirra er mótsagnakennt og spennuþrungið, bæði náið og ópersónulegt. Það kemur lesandanum algerlega í opna skjöldu þegar fyrsta kynlífsreynsla Marínar „brestur á“ með Kristófer. Henni er snaggaralega lýst og á sér engin eftirmál. Ekki í óléttu, ekki áhyggjum af mögulegri óléttu. Varla einu sinni í sambandi þeirra Kristófers.
Hún hafði ekkert ætlað í rúmið með honum, það var bara hann sem vildi það og svo þegar hann var byrjaður að kela við hana fór hún bara að verða til í það líka. [...] Hún hafði oft lent á keliríi við stráka fyrir norðan en aldrei farið alla leið þótt það hefði munað mjóu stundum, en nú fóru þau alla leið. Henni hafði ekki fundist það neitt æðislega gott en ekki neitt vont heldur. Þetta var allt í flýti gert, eiginlega höfðu þau ekki endað leikinn heldur hætt í miðju kafi. (123)
Þessi litla saga er einn af mörgum stöðum í bókinni sem gaman er að spegla í annarri nýlegri sögu af ungri og hæfileikaríkri utanbæjarstúlku að reyna að fóta sig „fyrir sunnan“.
Ég þarf að taka stjóta ákvörðun: ætla ég að fara heim og skrifa eða sofa hjá skáldinu? Sumar aðstæður er ekki hægt að takast á við öðruvísi en með því að klæða sig úr fötunum. Ég á ekki fín nærföt en honum er sama, hann vill bara fá mig úr þeim sem fyrst. Á eftir setur skáldið Sjostakóvits á grammafóninn og ég skoða mig um í herberginu sem er varla manngengt fyrir hávaxinn mann eins og hann. (Auður Ava Ólafsdóttir, Ungfrú Ísland, 93 (2018)
Hekla og Marín eru bæði hliðstæður og andstæður. Auður Ava gerir sína söguhetju nánast að ofurhetju og heiminum sem hún lifir í er lýst sem distópískri karllægri þrautabraut þar sem ofbeldi virðist alltaf rétt handan við næstu vendingu. Marín glímir í grunninn við sömu samfélagskrafta, ef „glíma“ er rétta orðið. En það er ljóðræn óræðni í lýsingu heimsins/götunnar, og Marín sjálf er óræð og óráðin, ólíkt Heklu sem finnur skáldskapinn krauma innra með sér. Hekla veit hað hún er og hvert hún verður að stefna. Marín veit það ekki, en streitist þó með hálfum huga við tilraunum samfélagsins til að teyma hana á „réttan“ bás.
III
Tíðarandinn leikur stórt hlutverk í Götu mæðranna og er aðallega miðlað með því að lýsa daglegu lífi, búsetuháttum, verkaskiptingu, og að sjálfsögðu stöðu og möguleikum kynjanna. Einnig fá börn og barnaleikir nokkuð pláss, sérstaklega eru óstýrlátir synir Elísabetar, sem Marín þarf mikið að sinna, fyrirferðarmiklir og skemmtilegir.
Minna fer fyrri beinum vísunum í „sögulegan veruleika“ tímabilsins, án þess að honum sé algerlega haldið utan bókar. Þannig er nokkrum sinnum minnst á Rolling Stones, sem Marín og Kristófer hlusta á í herberginu hans meðan þau skapa myndir af nágrönnum sínum og skólafélögum í orðum hans og teikningum hennar. Þau vanga líka við „The House of the Rising Sun“, en við fáum hinsvegar ekkert að vita hvað þetta unga menntafólk er að lesa, eða hvaða bíómyndir eru á dagskrá í bíóinu þar sem Marín selur miða.
Þessi lausu tengsl við sögulegan veruleika ýta undir þrálátri tilfinningu lesandans um að hér sé leikið tveimur skjöldum; að það sé alls ekki sjálfsagt að lesa þessa látlaust og fallega stíluðu sögu sem raunsæisverk, að taka Kristínu Mörju „á orðinu“ ef svo mætti segja. Þessi þröngi heimur sem Marín er samtímis að reyna að yfirgefa með því að þiggja boð móður Kristófers um að læra fatahönnun í París, og að skjóta rótum í með því að finna framtíðarsamastað undir verndarvæng einhvers annars en Elísabetar: er kannski frjótt og gagnlegt að skoða hann sem draumaheim?
IV
Ýmislegt ýtir lesandanum í þá áttina. Kannski öðru fremur þessi skrítna tilfinning fyrir því að allt sem Marín reynir að gera rennur út í sandinn. Atlögurnar að því að finna annað herbergi eru ómarkvissar, stemmingin í kringum Parísarferðina og mátt- og stefnuleysið i kringum skipulagningu ferðar og dvalar er sérkennilegt. Allt þetta minnir á drauma þar sem sá sem dreymir er að reyna að framkvæma eitthvað sem stöðugt víkur sér undan ætlun hans, stundum á rökvísan hátt en stundum ekki.
Og ef við hugsum um Götu mæðranna sem draumaheim Marínar liggur beint við að skilja íbúa hennar alla sem þætti í hennar eigin persónuleika. Óþekku strákana, sterku og fórnfúsu mæðurnar, hina önugu og köldu Elísabetu og skemmtanaglöðu fráskildu konuna. Að ógleymdum hinum ósnertanlega en yndisfríða Sturlu, og þeim uppreisnargjarna og vinsæla Kristófer.
Þessi túlkun kallst á við mikilvægan hliðarþráð bókarinnar, þegar Kristín Marja lýsir lífinu í myndaröð Marínar af hópi kvenna sem birtast fyrst snemma í bókinni fjórtán saman, svartklæddar með líkkistu og enda þrettán talsins, hvítklæddar á ströndinni eftir að ein þeirra, „konan sem ræður“ hefur gengið í sjóinn. Einnig þær er freistandi að sjá sem þætti í persónuleika, innra lífi, Marínar.
Í lok Götu mæðranna situr Marín eftir með ábyrgð og hlutverk Svenna og Elísabetar sem bæði hafa látið sig hverfa. Hann á vit ástarinnar, hún á vængjum framadraumanna. Ef við látum draumatúlkunina ráða för er togstreitan innra með Marín óleyst, en allir mögueikar enn opnir. Það er viðeigandi fyrir þessa sérkennilegu, lágstemmdu en áleitnu sögu.
Þorgeir Tryggvason, nóvember 2020