Beint í efni

Gestadvöl

Gröndalshús - Gestadvöl

Rithöfundum frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO gefst kostur á að sækja um mánaðardvöl í Gröndalshúsi á hverju ári. Fyrsti höfundurinn, Chantal Ringuet, dvaldi í húsinu í október 2019 en hún er fædd og uppalin í Québec City, sem hefur verið Bókmenntaborg UNESCO frá 2017.

Vegna heimsfaraldurs Covid-19 féll gestadvölin niður árið 2020 en í október 2021 verður Fiona Khan frá Bókmenntaborginni Durban í S-Afríku gestahöfundur í Gröndalshúsi. 

Haustið 2022 dvaldi ástralski höfundurinn Ronnie Scott frá bókmenntaborginni Melbourne í Gröndalshúsi. Hann var valinn úr hópi rúmlegra 100 umsækjenda frá Bókmenntaborgum UNESCO. 

Ronnie Scott er dósent í ritlist við RMIT háskóla í Melbourne. Skáldsaga hans, The Adversary (2020) var á styttri lista tilnefndra verka til Queensland bókmenntaverðlaunanna og var einnig tilnefnd til verðlaunanna Australian Literature Society Gold Medal. Hann hefur skrifað tvær bækur fyrir Listasafn Viktoríufylkis (National Gallery of Victoria) og einnig sérritið Salad Days sem var gefið út af Penguin (2014). Þá rannsakar hann og skrifar um myndasögur fyrir Folio: Stories of Contemporary Australian Comics.

Í Reykjavík hyggst Ronnie vinna að skáldsögu sem hverfist um götulist og hinsegin sögu. Um væntanlega heimsókn sína segir Ronnie:

Ég hlakka mikið til að dvelja og vinna í Gröndalshúsi í september. Það er áhugavert að hugsa um hlutverk Melbourne og Reykjavíkur sem Bókmenntaborgir UNESCO, báðar búa þær yfir merkri sögu og eru alþjóðlegar miðstöðvar ritlistar í dag, hvor með sínum hætti. Ég get ekki beðið eftir því að dvelja í Reykjavík til að komast að því hvernig borgirnar tengjast, eru ólíkar og spegla hvor aðra, og að skrifa skáldskap í þessu sögulega húsi í mánuð, vonandi með slökkt á símanum eftir tvö sítengd ár í heimsfaraldri.