Beint í efni

Goðahverfið

Í kringum Skólavörðuholtið eru götur sem sækja nöfn í norræna goðafræði. Þar eru til að mynda Freyjugata, Njarðargata, Urðarstígur, Lokastígur, Nönnugata, Haðarstígur og Þórsgata. Hverfið er stundum kallað „goðahverfið“ af þessum sökum og mun það raunar upphaflega hafa átt að heita Ásgarður, en nafnið vann sér ekki sess.

Helstu heimildir okkar um norræna goðafræði og heiðinn átrúnað er að finna í Eddu Snorra Sturlusonar og Eddukvæðum. Konungsbækur Snorra-Eddu og Eddukvæða eru báðar varðveittar í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík.

Snorra-Edda

Snorri Sturluson ritaði Eddu um 1220 en Snorra-Edda er ein helsta heimild okkar um heiðinn átrúnað og norræna goðafræði, auk Eddukvæðanna.

Um Snorra-Eddu segir á vef Árnastofnunnar:

Edda Snorra skiptist í fjóra hluta. Fyrst er formáli sem líta má á sem eins konar heimspekilegan inngang að öllu verkinu. Þar eru heiðin trúarbrögð rakin til fornrar dýrkunar á náttúrunni og norrænu goðin talin afkomendur Priams Trójukonungs sem fluttust til Norðurlanda og voru teknir þar í guðatölu.

Annar hlutinn er Gylfaginning sem er rammafrásögn í formi spurningarkeppni milli þriggja ása og Gylfa konungs úr Svíþjóð sem kemur á þeirra fund dulbúinn sem förumaðurinn Gangleri. Í svörum ásanna við spurningum Gylfa er fólgið ítarlegt yfirlit yfir norrænar goðsagnir allt frá tilurð jötna og goða og sköpun heimsins til tortímingar hans í ragnarökum. Víða er vitnað til vísna úr Eddukvæðum eins og Völuspá, Vafþrúðnismálum og Grímnismálum og þá stundum til annarrar gerðar en þeirrar sem varðveitt er í Konungsbók kvæðanna.

Þriðji hluti Eddu, Skáldskaparmál, hefst einnig í formi viðræðu milli Braga, guðs skáldskaparins, og Ægis, sjávarguðsins, en þar segir Bragi honum ýmsar goðsagnir í upphafi en svo hverfur frásögnin frá samtalsforminu og snýst yfir í skýringar og yfirlit yfir skáldskaparmálið. Tekin eru fjöldamörg dæmi um notkun kenninga og heita úr kvæðum norskra og íslenskra skálda frá ýmsum tímum og iðulega vitnað til kvæða sem nú eru glötuð. Einnig er skotið inn frásögnum úr goðsögnum og hetjusögnum til skýringar á uppruna kenninga.

Síðasti hluti Eddu er Háttatal sem er þrískipt kvæði, 102 vísur sem sýna eiga hina ýmsu bragarhætti.

Snorra-Edda er varðveitt í nokkrum útgáfum, einna merkust þeirra er Konungsbók, skinnbók sem er rituð af óþekktum skrifara snemma á 14. öld. Aðrar útgáfur eru Uppsalabók og Ormsbók sem einnig eru skinnbækur frá 14. öld og Trektarbók, pappírsuppskrift frá því um 1600.

Sjá nánar um Snorra-Eddu á vef Árnastofnunar.

Konungsbók eddukvæða

Handritið er ritað af óþekktum skrifara á síðari hluta 13. aldar en Konungsbók er elsta safn eddukvæða sem varðveist hefur og má segja að hún sé þekktasta bók Íslendinga.

Eddukvæði segja frá heiðnum goðum og hetjum, en hefð er fyrir að skipta þeim í goða- og hetjukvæði. Meðal goðakvæðanna eru Völuspá og Hávamál, Þrymskviða, Vafþrúðnismál, Skírnismál, Hymiskviða og Lokasenna. Meðal hetjukvæðanna eru Völundarkviða, Fáfnismál, Helreið Brynhildar, Guðrúnarkviður, Atlakviða, Oddrúnargrátur og Sigurðarkviður.

Konungsbók er án efa merkasta handrit í eigu Íslendinga og frægust allra íslenskra bóka á heimsvísu, enda hafa sumir viljað kalla hana Monu Lisu okkar Íslendinga. Fjölmargir seinni tíma höfundar hafa sótt í smiðju kvæðanna í öllum tegundum skáldskapar. Eitt nýjasta dæmið er ljóðabók Gerðar Kristnýjar frá 2010, Blóðhófnir, en hana byggir Gerður á Skírnismálum og túlkar hún kvæðið á annan hátt en hin hefðbundna túlkun segir til um. Konungsbók er í aðalhlutverki í samnefndri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, svo aðeins tvö og gerólík dæmi af fjölmörgum séu nefnd.

Konungsbók er eins og áður segir varðveitt í Árnastofnun hér í Reykjavík. Hún var lengi varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en kom aftur heim til Íslands í apríl 1971.

Sjá nánar um Konungsbók á vef Stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.