Beint í efni

Grasaferðir og heimilisleg efnafræði

Grasaferðir og heimilisleg efnafræði
Höfundur
Sunneva Kristín Sigurðardóttir
Útgefandi
Blekfjelagið
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Skáldið Sunneva Kristín Sigurðardóttir kveður sér til hljóðs með ljóðabókinni Mars sem er sú fyrsta sem hún sendir frá sér og er gefin út af bókaútgáfunni Blekfjelaginu. Samkvæmt upplýsingum á fésbókarsíðu útgáfunnar, er Blekfjelagið nemendafélag ritlistarnema við Háskóla Íslands og hóf útgáfustarfsemi sína á síðasta ári. Útgáfan hefur gefið út nokkur verk ritlistarnema, mest ljóðabækur og nóvellur. Sunneva stundar nú nám við ritlist en hefur að baki námi í ritstjórn og þjóðfræði. Það er verðugt að fylgjast með þeirri grósku sem fylgir ritlistarnáminu í útgáfu á smærri formum bókmennta (ljóðum, smásögum, nóvellum) og kynnast höfundum sem eru að taka sín fyrstu skref og eiga mögulega eftir að láta til sín taka þegar fram líða stundir.

Ljóðabókin Mars virðist við fyrstu sýn vera einhverskonar ferðasaga en hún hefst á tilvitnun úr Ferðabók Eggerts og Bjarna, nánartiltekið á fallegri lýsingu þeirra félaga á náttúrutilbrigðum á ónefndum stað: „Steingerðarmáttur vatnsins er mikill [...] því að hverhellurnar við klettinn eru krökkar af jurtastönglum og smábirkigreinum, sem eru gegnsteinrunnar, orðnar að bleiklitum, hörðum steini.“ Ferðabókin hefur veitt mörgum nútímahöfundinum innblástur og tilvitnunin sýnir glögglega af hverju; lýsingarnar minna á listilega samin ljóð og skapa blæbrigðaríkar myndir í huga lesanda.

Mars hefst á formála þar sem ljóðmælandi stígur inní birkilund og gerir sig tilbúna til að taka sýni. Er hún náttúrufræðingur að kanna líffræðilega fjölbreytni skógarlendis?

ég tel mig ganga inn í birkilund
finn ekkert nema reykmökk
mýri

en dásamlegt
hugsar fræðingurinn í mér
sem tekur sýni

les úr lögum
dulmyndir

Á eftir formálanum koma kaflar sem kallaðir eru sýni og bera númer eins og sýni nr. 1 og sýni nr. 2. Í fyrstu mætti ætla að sýnunum væri raðað í hefðbundna tölulega röð en þegar ég – hinn glöggi lesandi – tók eftir því að sýni nr. 4 fylgir sýni nr. 2, var ég í fyrstu viss um að um villu færi að ræða. Við nánari skoðun uppgötvaði ég hinsvegar að sýnin eru allsekki í tölulegri röð, þar sem sýni nr. 3 kemur á eftir sýni nr. 7, sýni nr. 5 á eftir sýni nr. 9 og loks sýni nr. 8 aftast og á undan eftirmála. Hér myndi fólk með skipulagsáráttu eflaust taka andköf og ég velti fyrir mér hvaða áhrif þessi óreiða á að skapa? Er það svona sem náttúrufræðingar sem dulbúast sem ljóðmælendur vinna? Eða eru sýnin ef til vill minningar sem eru einhvern veginn tímalausar í eðli sínu; birtast óforvarandis og rifja tilviljanakennt upp ólík tímaskeið?

Hvað sem því líður vísa titlar kaflana og hugmyndin um sýni í fræðinginn sem kynntur var til leiks í formálanum sem tekur sýni úr náttúrunni og greinir. Náttúrufræðingurinn lýsir sýnunum sem dulmyndum en þær reynast bæði margræðar og sérstakar. Í upphafsmyndinni heyrum við af ömmu sem stígur orgelpedala og einhver heklar teppi með óræðu mynstri sem minnir á dreka. Ljóðmælandi rifjar upp grasaferðir, þar sem lítið barn tínir vallhumal og garðablóm, pressir þau í bók og geymir. Amman sýður te úr grösunum og eldar mat, en í öðru sýni kemur fram að hún kjósi frekar að elda mat en að fara í messu. Það er einhver leyndardómsfull jarðtenging í þessum dulmyndum sem birtist í vísunum í gróður og náttúru, og í efni sem finna má í umhverfinu. Jarðtengingin birtist einnig í þeirri heimilislegu efnafræði sem virðist fara fram í ljóðunum, í þeim tilraunum sem ljóðmælandi framkvæmir í rjóðrinu, sem er ýmist birkilundur útivið eða griðarstaður hið innra?

reyndu að taka eftir tímanum
þegar þú stígur inn í rjóðrið
það er tilraun í gangi

maríukerti lýsir upp
bleikan stein
eldhúsbekk
fjaðrir

Síðustu fjórar línurnar draga upp stemningu sem finna má í fleiri erindum og lýsa því andrúmslofti sem skapast við tilraunir náttúrufræðingsins:

horn út úr fjalli
dauðaskrín
vaxdropa
kaktusnálar

Á tíðum er eins og heimilisleg efnafræðin nálgist einhverskonar kukl eða alkemíu og í einu sýninu virðist fara fram einhverskonar djöflaserimónía. Er verið að vekja upp einhverja anda sem búa í efninu eða jörðinni? Þá myndar sögnin að seytla hálfgert leiðarstef sem birtist aftur og aftur; mjólk seytlar gegnum arnarfjöður en tíminn seytlar einnig áfram, og jafnvel veröldin seytlar eða síast út.

Í sýni nr. 2, dvelur ljóðmælandi „eins og blóm inní bók“, en tekur að fikra sig hægt og rólega út í veruleikann, frá jörðinni og útí geim:

Þegar þú sérð dóttur þína, veistu
að það hlýtur að vera vatn á Mars.

Þegar frásögnin færist til Mars hverfur jarðtengingin, eðlisfræði tekur við af efnafræði og jarðbundin lögmál eins og þyngdarafl og höfuðáttir eru ekki lengur til. Hér er ekki lengur drukkið te í skógi eða rjóðri, eins og í grasaferðunum forðum daga, heldur í helli. Jarðtengingin gefur til kynna umhverfisvitund og þegar gróðurlendið er horfið er voðinn vís.

hættu þessu
krakkarnir mega ekki heyra

þau taka alvarlega
öllu þessu
með trén og jöklana
steinn skæri blað

Náttúrufræðin í meðförum ljóðmælanda minnir á hvernig náttúran, umhverfi og staðir, geyma minningar, og stundum ósögð tengsl sem liggja á milli tveggja manneskja, eins og í tilfelli lítillar stelpu og ömmu hennar. Þetta kemur fram í eftirmálanum sem útskýrir hvernig sýnin og dulmyndirnar eru eins og steingervingar sem fornleifafræðingar grafa upp og styðjast við til að setja fram kenningar um líf fyrri tíma. Að þessu leyti er ljóðabókin Mars ferðasaga í umhverfi og tíma, og varpar ljósi á hvernig tíminn skilur eftir sig spor í umhverfinu:

fræðingurinn í mér tekur sýni
Les úr dulmyndum

litlar tær
hófa
nótur blóm vers
þrá söknuð friðsæld
hreyfingu kyrrstöðu

tíma og hjörtu

Mars er heillandi ljóðabók og það er auðvelt að týna sér um stund í myndmáli höfundar sem einkennist af dularfullum náttúrumyndum, grasaferðum og gróðri, ömmum og tedrykkju, handavinnu og bróderingum, efnafræði og alkemíu. Þá langar mig sérstaklega að hrósa útliti bókarinnar sem er blá að lit með kuðungi framan á forsíðunni en utan um bókina er kápa með skærlitum hálfneonferskjulituðum innanásíðum sem skapa fallega birtu og hlýja umgjörð um ljóðin, og auka enn á lestraránægjuna.
 

Vera Knútsdóttir, desember 2022