Beint í efni

Hannes Hafstein - Hannesarholt

Hannes Hafstein

Hannesarholt stendur við Grundarstíg 10, en það var heimili ljóðskáldsins og ráðherrans Hannesar Hafstein (1861–1922). Hannes byggði húsið árið 1915 og bjó þar með fjölskyldu sinni til dauðadags.

Hannes Þórður Hafstein fæddist þann 4. desember að Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann nam lögfræði í Kaupmannahafnarháskóla eftir að hafa lokið prófi frá Lærða skólanum í Reykjavík og lauk lagaprófi 1886. Hannes orti ljóð á námsárum sínum og fyrst eftir að hann sneri heim úr námi, en lagði síðan skáldskaparstörf að mestu á hilluna eftir að embættisstörf hans tóku yfir.

Hannes settist fyrst á Alþingi árið 1900 og fór fyrir Heimastjórnarmönnum þegar Danir samþykktu að settur yrði ráðherra á Íslandi 1904 og landið fengi heimastjórn. Hannes varð þannig fyrsti ráðherra Íslands og gegndi því embætti til ársins 1909 og síðan aftur frá 1912-14. Meðal þeirra mála sem Hannes kom að í ráðherratíð sinni var „símamálið“ svokallaða, en hann beitti sér fyrir því að sími yrði lagður til landsins í gegnum sæstreng í stað þess að taka upp loftskeytasamband.

Hannes Hafstein birti sín fyrstu kvæði þegar hann var 18 ára gamall. Hann hélt síðan áfram að yrkja næstu árin og gaf út fyrsta ljóðasafnið 1893, Ýmisleg ljóðmæli. Ljóðasafn hans kom út 1916 og það var síðan endurútgefið af skáldinu Tómasi Guðmundssyni árið 1968.  Hannes var einn þeirra sem komu að útgáfu tímaritsins Verðandi, en það flutti boðskap raunsæis sem var á þeim tíma að taka við af rómantísku stefnunni. Það er þó varla hægt að segja að ljóð Hannesar beri sterk merki raunsæisstefnu, þau eru þvert á móti þrungin tilfinningu og rómantík.

Kona Hannesar var Ragnheiður Stefánsdóttir (1871-1913) og eignuðust þau tíu börn. Ragnheiður var látin þegar Hannes og fjölskylda hans fluttu að Grundarstíg 10, en hér bjó hann ásamt börnum sínum, móður og tengdamóður til dauðadags.

Stormur

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi´ um foldina fer,
þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.
Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,
með ólgandi blóði þér söng minn ég býð.
Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;
hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.

 

Frekari upplýsingar: hannesarholt.is