Í september 2012 rennur tími heimsbókmenntanna upp í Bókmenntaborginni Reykjavík. Boðið verður upp á röð viðburða helgaða bókmenntum frá ólíkum heimshornum út mánuðinn.
Þrír rithöfundar, Mazen Maarouf frá Palestínu, Elena Poniatowska frá Mexíkó og Nikolaj Frobenius frá Noregi, munu taka þátt í höfundasamtölum og upplestrum. Samhliða bókmenntadagskránni verður einnig boðið upp á sýningu á málverkum Mazens Maarouf og málþing um mexíkóskar bókmenntir.
Í september færist kastljósið einnig að fjölþjóðlegum barnabókmenntum. Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Mýrin verður haldin í mánuðinum og þar munu þekktir barna- og unglingabókahöfundar, fræðimenn og aðrir listamenn frá fjölmörgum löndum koma fram.
Í september verður veröldin sem opin bók og við bjóðum ykkur að glugga í hana.
MAZEN MAAROUF
Fimmtudagur 6. september kl. 17:00
Borgarbókasafn, Tryggvagötu 15
Dagskrá:
Rithöfundurinn Sjón ræðir við Mazen Maarouf um höfundaferil og verk hans. Hjalti Rögnvaldsson mun einnig flytja ljóð eftir Mazen í þýðingum íslenskra skálda auk þess sem Mazen les á arabísku.
Við sama tækifæri opnar sýning á málverkum Mazens á bókatorgi Borgarbókasafns, en hann málar myndir á striga samhliða skrifum sínum.
Aðgangur er frír og öllum opinn.
Mazen Maarouf (f. 1978) er palestínskt ljóðskáld og rithöfundur. Fjölskylda hans flúði Palestínu árið 1948 og hann hefur lengst af búið í Líbanon þar sem hann ólst upp, gekk í skóla og starfaði.
Ljóð eftir Mazen hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Þau hafa birst í tímaritum og safnritum í Frakklandi, Skotlandi, á Íslandi, í Svíþjóð, Kína og Möltu.
Mazen er gestarithöfundur í Reykjavík á vegum Reykjavíkurborgar og ICORN, International Cities of Refuge.
ELENA PONIATOWSKA
Mánudagur 10. september kl. 20:00
Iðnó
Dagskrá:
Ávarp: Friðrik Steinn Kristjánsson, ræðismaður Spánar.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík fjallar um mexíkóskar bókmenntir.
María Rán Guðjónsdóttir, þýðandi skáldsögu Poniatowsku, ræðir um verkið.
Þórey Sigþórsdóttir, leikkona, les úr skáldsögu Poniatowsku.
Ávarp: Elena Poniatowska.
Forlagið býður upp á fordrykk áður en dagskráin hefst. Veitingasala hússins verður opin á meðan dagskrá stendur. Bókin verður til sölu á tilboðsverði og Poniatowska áritar verkið.
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Elena Poniatowska (f. 1932) er einn þekktasti rithöfundur Mexíkó. Hún beinir ekki síst sjónum að mannréttindamálum og félagslegri stöðu kvenna og fátækra, en Poniatowska skrifar bæði skáldverk og blaðagreinar og bækur um samfélagsmál.
Skáldsaga hennar
Jesúsa: Óskammfeilin, þverúðug og skuldlaus kemur nú út hjá Forlaginu í íslenskri þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur. Bókin segir sögu fátækrar konu sem barðist í mexíkósku borgarastyrjöldinni.
NIKOLAJ FROBENIUS
Laugardagur 22. september kl. 14:00
Norræna húsið
Dagskrá:
Rithöfundurinn Sjón ræðir við Nikolaj Frobenius um verk hans og lesið verður úr íslenskri þýðingu skáldsögunnar
Svo heitt varst þú elskaður (Så høyt var du elsket).
Nikolaj Frobenius (f. 1965) er norskur skáldsagna- og handritshöfundur, sem hefur notið töluverðrar hylli innan Noregs og utan.
Þriðja skáldsaga hans
Latour‘s Catalog vakti alþjóðlega athygli og kom út í enskri þýðingu árið 1996, en síðan hafa bækur hans verið þýddar á fjölda tungumála.
Skáldsaga hans
Svo heitt varst þú elskaður er ljúfsár saga um mann sem þarf að takast á við veikindi aldraðs föður síns. Bókaforlagið Draumsýn gefur út bókina í þýðingu Ólafs Bjarna Halldórssonar.
Aðgangur er frír og öllum opinn.
MATUR ÚTI Í MÝRI
ALÞJÓÐLEG BARNABÓKMENNTAHÁTÍÐ
15.-17. SEPTEMBER
Laugardagur 15. september kl. 15:20-17.00
Norræna húsið
Dagskrá:
Opnun hátíðarinnar í Norræna húsinu þar sem Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur og formaður IBBY á Íslandi flytur opnunarræðu. Afhent verða verðlaun til vinningshafa í smásagnasamkeppni hátíðarinnar og Samtaka móðurmálskennara. Að því loknu hefst málstofa þar sem rit- og myndhöfundarnir Jakob Martin Strid, Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Eldjárn og Svein Nyhus fjalla um hvaða hlutverki matur gegnir í bókmenntum þeirra. Egill Helgason stjórnar málstofunni og umræðum að fyrirlestrum loknum. Þórarinn Eldjárn kynnir málstofuna með stuttri tölu.
Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á
www.myrin.is.
Allir eru velkomnir.
Eftirtaldir aðilar standa að dagskránni: Borgarbókasafn Reykjavíkur, Háskóli Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Ræðisskrifstofa Spánar á Íslandi, Norræna húsið, Norræna félagið, Norski bókmenntakynningarsjóðurinn, Forlagið, Draumsýn, Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Mýrin og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO