Beint í efni

Heltekin

Heltekin
Höfundar
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Höfundur: Flynn Berry

Um bókina

Nora Lawrence fer að heimsækja Rachel systur sína sem býr í litlu þorpi nálægt Oxford. Enginn tekur á móti henni á lestarstöðinni – og þegar hún kemur í hús systurinnar finnur hún blóði drifið lík hennar á stofugólfinu.

Nora treystir lögreglunni ekki til að finna morðingjann og verður heltekin af því að leita hann uppi. Hún er viss um að morðið tengist hrottalegri líkamsárás sem Rachel varð fyrir mörgum árum áður. Leyndarmál fortíðarinnar koma smám saman í ljós og Nora kemst að því að hún þekkti systur sína ekki eins vel og hún hafði haldið.

Flynn Berry stundaði nám í skapandi skrifum við Michener-rithöfundamiðstöðina við The University of Texas í Austin. Hún hlaut Edgar-verðlaunin 2017 fyrir bestu fyrstu skáldsöguna, Under the Harrow. Bókin var valin ein af tíu bestu glæpasögum ársins af The Washington Post.

Úr Heltekin

  Og svo er húsið hennar í sjónmáli. Ég geng upp brekkuna, mölin brakar undir fótum mér. Bílnum hennar er lagt í heimreiðinni, hún hlýtur að vera nýkomin heim. Ég opna dyrnar. 
  Ég hrökklast aftur á bak áður en ég veit hvað amar að húsinu, eins og eitthvað hafi flogið á mig.
  Það fyrsta sem ég sé er hundurinn. Hundurinn hangir í ólinni sinni niður úr stigaganginum. Það marrar í bandinu þegar hundurinn sveiflast rólega í hringi. Ég veit að þetta er slæmt en þetta er líka furðulegt. Hvernig fórstu að þessu? velti ég fyrir mér.
  Ólinni er vafið um stólpa í stigahandriðinu. Hann hlýtur að hafa flækt ólina og dottið og kyrkt sig. En það er blóð á gólfinu og veggjunum.
  Ég ofanda, þótt allt sé stillt og hljótt í kringum mig. Það ríður á að ég geri eitthvað en ég veit ekki hvað. Ég kalla ekki á Rachel.
  Það er blóðrák á veggnum rétt neðan við öxlina á mér, líkt og einhver hafi skjögrað upp og stutt sig við vegginn. Þar sem blóðrákin endar er rautt handarfar á þrepinu, og á næsta þrepi, og á stigapallinum.
  Á ganginum uppi verða blettirnir sóðalegir. Ég sé engin handarför. Það lítur út fyrir að einhver hafi skriðið eða verið dreginn. Ég stari á blettina og svo eftir nokkurn tíma lít ég inn ganginn.

(15-16)

 

Fleira eftir sama höfund