HHhH stendur víst fyrir „Heili Himmlers heitir Heydrich“. Þessi bók greip mann heljartökum undir eins og fór víst líka rakleiðis á metsölulista Eymundssonar eftir að gagnrýnendur lýstu yfir hrifningu sinni í Kiljunni. Það er ekki að spyrja að áhrifamætti þess sjónvarpsþáttar. Þungamiðja bókarinnar er fræg tilraun tékkóslóvakískra andspyrnumanna til að ráða Reinhard Heydrich af dögum í Prag árið 1942, sem hafði í för með sér voðalegar hefndaraðgerðir þýska hernámsliðsins. Meðal annars var þorpið Lidice máð af landakortinu og öllum íbúum þess komið fyrir. Sú grimmilega hefndaraðgerð kom Þjóðverjum raunar illa á alþjóðavettvangi enda var þorpið valið eftir duttlungum ráðamanna þegar í óefni var komið með eftirgrennslan og leit að tilræðismönnunum. Upphaflega hafði höfundurinn ráðgert að bókin yrði nefnd „Anthropoid“ en það var heitið á aðgerðinni sem var eiginlega, eða átti að vera, sjálfsmorðsárás.
Höfundur sjálfur er allmikið áberandi í bókinni og segir frá glímunni við að koma sögunni frá sér, hann er eiginlega í miðri frásögninni. Svipaða aðferð notaði Kurt Vonnegut árið 1972 í upphafi Slaughterhouse 5 (sem í íslenskri þýðingu Sveinbjörns Baldvinssonar, 1982, kallaðist Sláturhús fimm eða Barnakrossferðin) en Vonnegut dró sig fljótlega í hlé og leyfði lesendum að fylgjast með söguhetjunni, Billy Pilgrim, án þess að trana sér mikið meira fram. Sú bók er talin ein af fyrstu póstmódernísku skáldsögunum og þótti að mörgu leyti undarleg en hlaut góðar viðtökur á sínum tíma og er enn mikið lesin. Vonnegut var að gera upp stríðsátök, m.a. loftárásir Bandamanna á Dresden og höfundur HHhH er líka að gera upp atburði úr Heimstyrjöldinni síðari og sannast sagna virkar þessi frásagnaraðferð afskaplega vel og þykir að sjálfsögðu ekkert skrýtin nú á tímum, þökk sé Vonnegut og fleirum. Binet minnist raunar á það á einum stað í bókinni að við lifum á póstmódernískum tímum sem eru nokkuð ólíkir því sem var fyrir sjötíu árum.
Af og til læðast inn í söguna þankar höfundar um að líklega hafi persónurnar ekki talað svona eða hinsegin saman, líklegra að þær hafi sagt eitthvað annað, orðað hlutina öðru vísi ... og er þá stundum brugðið upp nýju sjónarhorni og samtali. Svo rekst Binet á bækur sem fjalla um sömu atburði. Þær bæði gleðja hann og draga aðeins úr honum kjarkinn, sérstaklega ef þær reynast betri en búast mátti við. Hann minnist meðal annars á Sjö menn við sólarupprás eftir Alan Burgess (ísl. þýð. 1962) sem er lýst sem sannri hetjusögu um sjö tékkneska hermenn, sem sendir eru til heimalands síns í síðustu heimssyrjöld í hættulegum erindagerðum. Þessi bók er skráð sem sagnfræðirit í íslenskum bókasöfnum en í henni stangast eitthvað smávegis á við söguna sem Binet er að reyna að segja. Fleiri bækur sem snerta sömu atburði tiltekur höfundur; Föðurland eftir Robert Harris (ísl. þýð. 1993), Les bienveillantes (Hollvættir) eftir Jonathan Littell og fleiri. En hann paufast áfram með sína bók ár eftir ár, það tekur langan tíma að skrifa hana, og útkoman er þessi stórkostlega heimildaskáldsaga sem þrátt fyrir efnið er leiftrandi skemmtileg og útskýrir á fremur einfaldan hátt víðtækt hernaðarbrölt Þjóðverja. En fyrst og fremst er þetta sagan um tilræðið sem Heydrich var gert í Prag, mennina sem stóðu fyrir því og afleiðingar þess arna fyrir land og þjóð.
Það hefði verið hægt að bæta tveimur h-um til viðbótar í titilinn; höfundur Helfararinnar, því að vissulega var Heydrich höfundur ýmissa þeirra aðferða sem notaðar voru til að útrýma Gyðingum. Hann var samviskulaust möppudýr og einn sá versti af mörgum slæmum liðsmönnum þýskra nasista. Bókin er á fallegri íslensku, aðeins á örfáum stöðum má sjá smávægilega yfirlestrarfeila, það er vel sloppið. Verulega áhugaverð og vel skrifuð bók.
Ingvi Þór Kormáksson