Beint í efni

HÍ 101 - Kvöldganga menningarstofnanna Reykjavíkurborgar

Síðasta kvöldganga menningarstofnanna Reykjavíkurborgar í sumar verður farin fimmtudagskvöldið 16. ágúst kl. 20. Venju samkvæmt  standa allar stofnanirnar saman að þessari lokagöngu, en þar fá göngumenn að kynnast einni helstu mennta- og menningarstofnun landsins, Háskóla Íslands. Rætt verður um sögu skólans, allt frá stofnun hans fyrir 101 ári og uppbygging háskólasvæðisins verður skýrð í máli og myndum. Einnig verður fjallað um listaverk, ljóð og aðrar bókmenntir sem tengjast skólanum. Bókmenntatengt efni í göngunni snýr meðal annars að Þórbergi Þórðarsyni og skólagöngu hans. Árið 1909 settist hann á skólabekk Kennaraskólans með háleitar hugmyndir um námið en varð fyrir miklum vonbrigðum og gerir hann þessum umsnúningi skil í Ofvitanum. Eftir veruna í Kennaraskólanum setti hann stefnuna á hina nýstofnuðu Heimspekideild Háskóla Íslands. Einnig verður vikið að hinni kostulegu sögu Þórarins Eldjárns, „Rannsóknaræfingunni“ og þá koma einkunnarorð Háskóla Íslands, „Vísindi efla alla dáð“, við sögu en þau eru sótt í ljóð eftir Jónas Hallgrímsson. Gangan hefst í Grófinni, milli Tryggvagötu 15 og 17, klukkan 20.00. Áætlaður göngutími er um 90 mínútur. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis. Efnið í göngunum í sumar hefur verið afar fjölbreytt og víða hefur verið staldrað við. Sem dæmi má nefna göngu Ljósmyndasafns Reykjavíkur um gömlu höfnina, þar sem þróunarsaga hennar var rakin í myndum. Borgarbókasafnið leiddi göngu hvar sjónum manna var beint að neðanjarðarstarfsemi í skáldskap og sagnagerð. Listasafn Reykjavíkur stóð meðal annars fyrir göngu í samvinnu við Nýlistasafnið, með áherslu á listamannarekin rými og Minjasafn Reykjavíkur beindi sjónum manna til himins, á listaverk og skreyti húsa í miðborginni. Kvöldgöngurnar eru í boði Borgarbókasafns, Listasafns, Ljósmyndasafns og Minjasafns Reykjavíkur.