Beint í efni

Hinir sterku

Hinir sterku
Höfundur
Kristján Þórður Hrafnsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Að sumu leyti kallast önnur skáldsaga Kristjáns Þórðar Hrafnssonar, Hinir sterku, á við verðlaunaskáldsögu Auðar Jónsdóttur, Fólkið í kjallaranum. Ung kona sem finnur sig knúna til að velta fyrir sér gildismati sinna nánustu og samtíma síns er í aðalhlutverki og þarf að takast á við dramatíska atburði í fjölskyldunni. Í skáldsögu Auðar er aðalpersónan mjög fyrirferðarmikil og afgerandi persóna, en því er ekki þannig háttað í Hinum sterku. Þar er aðalsöguhetjan vissulega sögumiðjan, en hún er fyrst og fremst í miðlunar- og speglunarhlutverki, hún tekur á móti og miðlar skoðunum annarra, þá fyrst og fremst þeirra karlmanna sem næst henni standa og það eru þá helst nýfrjálshyggjuöflin sem hún tekst á við, eins og titillinn gefur til kynna. Þetta miðlunarhlutverk og persónuleikaleysi er undirstrikað með því að hún er sjónvarpskona sem tekur viðtöl við fólk og miðlar skoðunum þess og gerir sér upp mótrök, frekar en að koma á framfæri eigin skoðunum, og þetta kemur einnig fram í nafnleysi persónunnar – karlmennirnir fá allir sitt nafn, þó ekki endilega strax þegar þeir eru kynntir til sögunnar, heldur líður oft nokkuð á textann áður en nafn þeirra er nefnt, sem stundum virkar ruglingslegt, því úr verður svolítið ógreinilega súpa persónufornafna.

Þessi verk eiga það einnig sameiginlegt að vera að vissu marki svipað uppbyggð, þ.e.a.s. frásagnartíminn sem er takmarkaður við um það bil sólarhring er fleygaður með tíðu endurliti til fortíðar. Í Hinum sterku er snemma gefið í skyn að aðalpersónan hafi nýlega gengið í gegnum mikla erfiðleika, en hverjir þeir eru fær lesandinn ekki að vita fyrr en nokkuð er liðið á verkið, sem skapar spennu í frásögninni. Hennar fortíð og æska er ekki í forgrunni, heldur er það fremur æska og bakgrunnur barnsföður hennar sem hér skiptir máli og þá sérstaklega samband hans við föður sinn, rokkarann af ’68-kynslóðinni, sem er einhvers konar táknmynd óhefts einstaklingsfrelsis. Barnsfaðirinn er sumsagt afsprengi þess konar uppeldis, vinir hans dæmigerðir nýfrjálshyggjugaurar og nýi kærastinn, sagnfræðineminn, er húmanistinn og andstæða þeirra. Umræðurnar sem settar eru á svið um frjálshyggjuna eru frekar fyrirsjáanlegar og sjónvarpsumræður um efnið, sem ein persónan tekur þátt í, nokkuð sannfærandi lýsing á slíkum umræðum. Sjónvarpsumræðustíllinn er þar látinn halda sér án þess að neinu sé bætt við og því verða umræðurnar kannski lítt spennandi. Aðalpersónan er smám saman að komast á þá skoðun, sem er byggð á grein eftir konu í Lesbókinni, að nýfrjálshyggjan ali á tómlæti, grimmd og kaldrana í þjóðfélaginu og atburðirnir í lífi hennar eiga að undirstrika það. Hér er lítið um nýja sýn eða sjónarhorn á þetta efni, frekar eru dregin fram algeng viðhorf og klassískar mótbárur, og er spennan milli andstæðra sjónarhorna látin kristallast í sambandi aðalpersónunnar og barnsföðurins.

Málfar er oftast mjög blátt áfram og laust við tilgerð. Það virkar þó stundum klúðurslegt, sagt er um einn mann að hann hafi verið í ‘vondu jafnvægi’ (bls. 102) og sá hinn sami er með slökkt á símanum því ‘kannski eru aðstæðurnar þannig að hann vill ekki taka hann’ (bls. 7). Hinir sterku er skáldsaga sem tekst á við samtíma sinn og hugmyndaheim kynslóðar, en kannski er sýnin hér heldur svarthvít og hefði að ósekju mátt draga fram gráu svæðin, þau óþægilegu og óræðu, sem kannski hefði skapað frjórri umræðu.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005