Beint í efni

Hr. Ibrahim og blóm Kóransins, Óskar og bleikklædda konan og Milarepa

Hr. Ibrahim og blóm Kóransins, Óskar og bleikklædda konan og Milarepa
Höfundur
Eric-Emmanuel Schmitt
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Hr. Ibrahim og blóm Kóransins, Óskar og bleikklædda konan og Milarepa
Höfundur
Eric-Emmanuel Schmitt
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Hr. Ibrahim og blóm Kóransins, Óskar og bleikklædda konan og Milarepa
Höfundur
Eric-Emmanuel Schmitt
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á lestarstöðinni er hópur af unglingum, hávaðasömum og sjálfhverfum, vandræðalegum og álappalegum, strákum og stelpum. Þegar ég kom inn í lestina var þar fyrir annað gengi, nú einungis strákar, allir af erlendum uppruna. Þetta mynstur hélt áfram að endurtaka sig í nokkra daga: blandaðir hópar af blönduðum uppruna, stelpuhópar, en alltaf strákahópar í miklum meirihluta. Það eru jú oftast strákar sem hópa sig saman til að skapa hávaða og rými í kringum sig hugsaði ég óljóst en var samt alltaf að leita að einhverju. Loksins áttaði ég mig á því hvað vantaði: hóp af stelpum af erlendum uppruna. Þær sá ég í mesta lagi tvær og tvær saman, með sínar blæjur, mis-umfangsmiklar, oftast sá ég þær þó í för með hjúpuðum mæðrum sínum. Ég fór að spyrja frænku mína um þetta og hún hnussaði: stelpurnar hafa ekkert frelsi hjá þeim innflytjendum sem eru íslamstrúar. Núnú svaraði ég, og fannst ég þrátt fyrir allt þurfa að sýna víðsýni mína, en einhverntíma hef ég heyrt að þessar konur líti svo á að það sé ófrelsi okkar vesturlandakvenna að vera of sýnilegar, að allir geti horft á okkur. Við ræddum þetta aðeins og að lokum sagði hún dálítið þreytulega: konan kemur alltaf illa út úr trúarbrögðum, hvort sem það er kristni eða íslam eða annað. Og við urðum báðar þögular og gengum áfram í glampandi sólinni, í átt að fílunum hans Carlsbergs.

Þessi umræða minnti mig á upplifunina af trílógíu Erics-Emmanuel Schmitt, Hr. Ibrahim og blóm Kóransins, Óskar og bleikklædda konan og Milarepa, sem kom út í Neon-röð Bjarts í fyrra. Þrátt fyrir að bækurnar væru afarvel skrifaðar og vel þýddar, næstum sykursætar í sinni ljúfsáru tóntegund og barnslega húmor – nema helst Milarepa, þá skildu þær eftir sig óbragð hjá mér, sem ég hef enn ekki losnað við. Og óbragðið fólst í þessu; konan kemur illa út úr þessum litlu skáldsögum um trúarbrögð.

Trílógía Schmitt fjallar sumsé um trúarbrögð, býður lesandanum uppá litla sögu um þrjár tegundir trúar, trúin er séð, upplifuð, jafnvel könnuð, í gegnum augu einstaklingsins, í fyrstu bókinni er fjallað um Islam, þar kynnist ungur gyðingadrengur nýjum guði og konum þegar hann er tekinn í fóstur af búðareiganda sem hjálpar honum að koma sér innundir hjá hórum. Sjónarhornið er barnslegt og drengurinn er bæði óhamingjusamur og afskiptur, móðir hans hefur yfirgefið föður hans, sem síðan sinnir drengnum lítið, en talar stöðugt um hinn frábæra bróður hans. Sagan fjallar öðrum þræði um sjálfsmynd og skipti á slíkri, en strákurinn hafnar í raun sjálfum sér og tekur upp annað nafn og annað líf.

Kristnin er viðfangsefni næstu bókar (mjög pólitískt rétthugsað að byrja á íslam og færa sig svo yfir í kristni) sem lýsir báráttu ungs drengs fyrir lífi sínu, en hann liggur á spítala með hvítblæði. Óskar er skotinn í stelpu sem líka er veik og þykir ógurlega vænt um konu sem hjúkrar honum og kallar hana bleika engilinn og hún talar við hann um trúmál og hann skrifar til guðs og biður um hjálp.

Báðar sögurnar taka fyrir mjög hefðbundin viðfangsefni sem er gefið aukabragð með trúarbragða tengingunni. Annarsvegar sjáum við þroskasögu stráks og hinsvegar átök barns við trúna í bland við vangaveltur um barnatrú og bókstafleika, en slíkar sögur eru einnig heil bókmenntategund. Báðar sögurnar sýna trúarbrögð í fremur björtu ljósi, hér er ekki verið að fjalla um myrkar hliðar trúarinnar, né trúarhita eða ofstæki.

Það er öllu myrkara yfir þriðju bókinni, sem sömuleiðis er hvað síst vel skrifuð og gengur síst upp. Milarepa fjallar um búddisma, karma og hefnd, en jafnframt um sjálfsverund og fyrirgefningu. Milarepa fremur svartagaldur innblásinn af hefnd eftir illa meðferð hins illa frænda síns á sér og fjölskyldu sinni, hörmungunum er lýst í miklu smáatriðum, sérstaklega útreið kvennanna. En eitthvað er Milarepa ekki sáttur og endar hjá Tíbetskum munkum og lærir þar um fyrirgefningu. Í fyrri bókunum tókst að skapa sannfærandi mynd af trúarbrögðum sem lesandinn getur nokkuð auðveldlega samþykkt og gengist inná, en einhvernveginn virkaði trúarheimurinn ekki nægilega sannfærandi í þessari sögu og tóntegundin var eitthvað gervileg. Mögulega er skýringin sú að hinar bækurnar runnu svo mjúklega í gegn, innblásnar af hinu barnslega ljúfsára sjónarhorni og að þessi sker sig nokkuð mikið frá því. Þannig má segja að þrátt fyrir að þetta verkefni, að gefa innsýn í heim ólíkra trúarbragða, sé allrar virðingar vert, þá gengur það ekki alveg upp innan trílógíunnar.

En eins og áður sagði getur verið að ástæðan fyrir því að ég sé ekki vel sátt við trílógíuna sé sú að niðurstaðan er sú sama í þeim öllum: konur eru aukahlutir, hórur eða vondar mæður í fyrstu bókinni, óvirk viðföng ástar stráka eða ömmur í annarri bókinni, hórur og hefnigjarnar nornir í þeirri þriðju. Trúarbrögðin eru sýndur sem heimur karla - utan helst bleika amman í Óskars-sögunni, en hún er ekki virk í trú sinni eins og Óskar - eins og bæði Ingibjörg Sigurðardóttir og Gísli Magnússon hafa bent á í umfjöllun sínum um Ibrahim og Kóraninn á Kistan.is.

Nú mætti velta fyrir sér hvort ég sé ekki að láta einhvern ofstækisfullan femínisma skemma fyrir mér, og þarmeð skipta út einu dogma fyrir annað, en segja má að verkefni Schmitt sé einmitt að hluta til að sýna trúarbrögð ekki sem dogma heldur lifandi tilveru. Ég get ekki samþykkt slíkar röksemdir, því fyrir mér er femínsiminn einmitt ekki dogma, heldur lifandi tilvera, sem ég lifi daglega. Og ég get ómögulega samþykkt að til að njóta bókmenntaverka eða annarra menningarafurða þurfi ég að slökkva á þeirri tilveru. Hinsvegar tel ég mér skylt að benda á að margar konur sem ég þekki hafa lesið bækurnar og verið afar-hrifnar af þeim, fundist þær sætar, fallegar, heillandi, áhugaverðar og eftirminnilegar. Og ég get vel tekið undir allt þetta, þessi trílógía er eitt af þeim bókmenntaverkum sem hreyfði verulega við mér, að því leyti að ég fór að hugsa um trúarbrögð, femínisma og lestrarupplifun. Þannig eru sögurnar mér sérlega eftirminnilegar - fyrir það hvað ég var gersamlega miður mín eftir lesturinn.

Úlfhildur Dagsdóttir, september 2005