Beint í efni

Hressingarskálinn

Steinn Steinarr

„Hann er ekki mikill á velli, lítill vexti og grannur, höfuðið óvenjustórt miðað við búkinn, ljóst hárið þykkt og liðað. Brúnn rykfrakki hans er fráhnepptur og jakkafötin virðast allt of stór. Hann gengur slyttislega, enda er vinstri hönd hans visin og öll hlið líkamans þeim megin afllítil.

Leið hans liggur að vanda inn á Hressingarskálann sem er stærsta og vinsælasta kaffihús bæjarins. Almenningur sækir það en jafnframt hittast þar daglega skáld, listmálarar og ýmiss konar menningarvitar.“

Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr: Leit að ævi skálds, 2000: JPV útgáfa

 

Saga Hressingarskálans í Austurstræti nær aftur til ársins 1932 og varð staðurinn strax mjög vinsæll, ekki síst vegna bakgarðsins þar sem veitingar voru bornar fram á góðviðrisdögum. Meðal þeirra sem fljótlega fóru að sækja staðinn voru skáld og menntafólk. Þar á meðal var ljóðskáldið Steinn Steinarr, og sat hann hin síðari ár yfirleitt á afmörkuðu svæði hægra megin við innganginn.

Steinn Steinarr tengist sterklega sögu borgarinnar, en hann var bæði róttækur pólitískur höfundur og eitt þeirra skálda sem losaði um ljóðformið og ruddi brautina fyrir módernismann. Ljóðlist hans þótti heimspekileg og hann er með fyrstu skáldum til að yrkja um tilvistarvanda nútímamannsins á Íslandi. Hann tilheyrði hópi atómskálda, sem komu fram á sjötta áratugnum, en það voru skáld sem byltu ljóðforminu á róttækan hátt og veittu ferskum straumum frá erlendum stórborgum til landsins. Síðan er oft talað um tímabilið sem atómöld, sem vísar auðvitað fyrst og fremst til þess að þarna er nútíminn fyrir alvöru að ryðja sér til rúms í hinu hefðbundna íslenska samfélagi.

Jón Óskar segir frá því í minnisatriðum sínum um Hernámsáraskáldin að á Hressingarskálanum hafi verið skeggrætt um allt milli himins og jarðar um bókmenntir. Meðal skálda og rithöfunda sem vermdu sæti hans voru Elías Mar, Jón Óskar, Hannes Sigfússon og Stefán Hörður Grímsson. Yngri skáld sóttu einnig staðinn og litu mjög upp til Steins, til dæmis hefur Thor Vilhjálmsson lýst  andrúmsloftinu á Hressó svo í endurminningum sínum:

„Salnum í Hressingarskálanum var skipt í álmur. Í einni þeirra sátu Ólafur Friðriksson, Jón Árnason stjörnuspekingur og Sigurður Jónasson, kallaður Seríus. Sigurður var risavaxinn maður og eftir því digur og tröllslegur. Hann hló svo hátt að glös hristust á Rifi þegar han þandi sig í Reykjavík. Hann var dulhyggjumaður mikill og fór sálförum. Ef hann þurfti að hitta mann í Bangkok fór sálin þangað eins og skryppi á meðan hylkið stóra lá í Reykjavík. Í annarri álmu héldu morgundagsins menn sig. Sigfús Daðason, Elías Mar, Jón Óskar, ég og fleiri. Við ætluðum flestir að verða skáld og sumir höfðu jafnvel gefið út. Eitt kvöldið var mikið talað um að bráðum kæmi Hannes Sigfússon heim, hann væri alltaf að lesa Dostóévskí. Ég hafði að vísu skrifað ritgerð um höfundinn og lesið úr henni fyrir hópinn en fengið slarkandi undirtektir. Menn voru á varðbergi og forðuðust að setja ljós sitt undir mæliker. Sumir voru þrúgaðir af gáfum og persónuleika Steins Steinarrs, drógu bara seiminn og sögðu: A-ha-ha-a-aa.”

Thor Vilhjálmsson, Fley og fagrar árar, 1996: Mál og menning

Miðvikudagur

eftir Stein Steinarr

Miðvikudagur. ­ Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. ­ Þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,
og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr’á Lækjartorgi.

Miðvikudagur. ­ Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn.