Beint í efni

Iceland Noir – fyrsta alþjóðlega glæpasagnahátíðin á Íslandi

Fyrsta alþjóðlega glæpasagnahátíðin á Íslandi, Iceland Noir, verður haldin dagana 21. - 24. nóvember í Reykjavík. Um þrjátíu rithöfundar og þýðendur taka þátt í hátíðinni, þar af kemur rúmlega helmingur frá útlöndum. Heiðursgestur er Arnaldur Indriðason en á meðal annarra gesta má nefna rithöfundana Ann Cleeves, höfund bókanna um Veru lögreglukonu, norska rithöfundinn Jorn Lier Horst, handhafa Glerlykilsins 2013, og Dr. John Curran frá Írlandi, einn fremsta sérfræðing heims í verkum Agöthu Christie. Á hátíðinni verður meðal annars boðið upp á ritsmiðju um glæpasögur á Borgarbókasafninu undir handleiðslu rithöfundarins Williams Ryan, glæpagöngu um söguslóðir Arnaldar Indriðasonar og að sjálfsögðu upplestrarkvöld og höfundaviðtöl. Frekari upplýsingar um hátíðina og viðburði má nálgast á www.icelandnoir.com. Dagskrá hátíðarinnar fer fram á ensku og eru viðburðir opnir öllum meðan húsrúm leyfir. Skipuleggjendur hátíðarinnar eru rithöfundarnir Quentin Bates, Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir, en samstarfsaðilar Iceland Noir eru Hið íslenska glæpafélag, Norræna húsið, Borgarbókasafnið og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.