Æviágrip
Ingibjörg Sigurðardóttir fæddist 17. ágúst 1925 að Króki í Skagahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hún gekk í barnaskólann í Kálfshamarsvík á Skaga í sömu sýslu og tók þaðan fullnaðarpróf. Ingibjörg vann kaupavinnu á sumrin sem unglingur, hreinsaði dún þrjú sumur og var í sveit á bænum Ásbúðum, en rúmlega tvítug flutti hún til Sandgerðis þar sem hún bjó upp frá því, fyrst sem ráðskona en síðar rithöfundur og húsmóðir.
Fyrsta skáldsaga Ingibjargar, Bylgjur, birtist sem framhaldssaga í Hinu nýja kvennablaði árið 1954, en var ekki gefin út á bók fyrr en 1961. Skáldsagan Sýslumannssonurinn er fyrsta prentaða skáldsaga Ingibjargar, en hún birtist einnig sem framhaldssaga í Heima er bezt. Ingibjörg var afkastamikill rithöfundur og sendi frá sér um þrjá tugi bóka á ferlinum, skáldsögur og ljóðabókina Hugsað heim (1962), auk þess að skrifa framhaldssögur í Heima er bezt. Síðasta skáldsagan sem Ingibjörg sendi frá sér er Glettni örlaganna frá 1991.
Ingibjörg Sigurðardóttir lést í Garði þann 17. júlí 2009.
Um höfund
Trú, von og kærleikur
Ingibjörg Sigurðardóttir hefur skrifað þrjátíu ástarsögur á þrjátíu árum. Hún hefur ekki gefið út bók síðan 1991, þegar Bókaforlag Odds Björnssonar hætti bókaútgáfu. Bækur hennar hafa notið gífurlegra vinsælda, og til marks um það má nefna að árið 1978 birti Morgunblaðið útlánslista bókasafna og þar kom í ljós að bækur Ingibjargar Sigurðardóttur voru í fyrsta sæti, en bækur Halldórs Laxness í því tíunda. Kemur þessi athyglisverða staðreynd fram í óbirtri B.A. ritgerð Völu Georgsdóttur (2002): „Rauðir þræðir og vænar slaufur, um ástarsöguna sem bókmenntagrein og þrjár skáldsögur eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur.“
Fléttan
Sögur Ingibjargar eru einfaldar að sniðum. Söguþráður flestra þeirra er nokkurn veginn á þá leið að ung fátæk stúlka kynnist höfðingjasyni og verða þau ástfangin. Foreldrar hans vilja ekki að hann taki sér svo ómerkilega stúlku fyrir konu og ná að stía þeim sundur. Stúlkan er mjög góð og því fer svo að þegar leiðir þeirra liggja saman aftur, bjargar hún lífi einhvers úr fjölskyldunni – helst þess sem lagði mesta fæð á hana – eða sýnir af sér svo mikla vináttu að henni verður samstundis fyrirgefið að vera af lægri stigum. Svo giftist unga parið og úti er ævintýri. Þessi saga kemur fyrir aftur og aftur, með ýmsum útfærslum. Stundum er það stúlkan sem er vel ættuð og pilturinn þá henni ekki samboðinn eða þá að þau eru bæði jafnsett í þjóðfélaginu en þá er einhver önnur sem leggur ást á hann og stíar þeim í sundur. En alltaf kemur sú flétta upp: einhver verður til að stía þeim sundur en ástin sigrar allt mótlæti og þau ná saman að lokum. Þetta er söguflétta sem Ingibjörg hefur góð tök á og hefur reynst henni vel í þrjátíu bókum.
Stéttaskipting
Stéttaskipting er mikil í bókum Ingibjargar. Hún var vissulega til á þessum tíma og er fróðlegt fyrir lesendur að velta fyrir sér afleiðingum hennar fyrir almenning. Í bókunum er fólk dregið í dilka eftir ætterni, efnahag og starfsgreinum. Mikið dálæti kemur fram á sveitarstjórnarmönnum og valdsmönnum. Draumaprinsarnir eru ýmist synir hreppstjóra og sýslumanna eða sjálfir orðnir hreppstjórar og sýslumenn, nema hvorttveggja sé. Heildsalar koma fyrir, og eru þá fulltrúar græðginnar og mannvonskunnar. Yfirleitt má segja að allar þær persónur sem setja peninga í öndvegi séu vondar. Metorð eru góð, ef þau eru vel með farin, en að þrá metorð eða berjast fyrir þeim er afar vont. Það sýnir hégómagirni sem er af hinu illa. Verk á að vinna af fórnfýsi og ánægju. Læknar eru gríðarlega góðir, enda alltaf að bjarga mannslífum. Þeir fara gjarnan út í vonskuveður til að bjarga einhverjum og hefur þá kvensöguhetjan miklar áhyggjur sem sefast þegar hún biður bænirnar sínar.
Trú
Það fer ekki framhjá lesandanum að höfundurinn hefur ríka trú. Kærleiksboðorð Jesú Krists er margboðað í bókum hennar. Beinharðar tilvitnanir í Biblíuna koma gjarnan fyrir. En lengstum eru gjörðir sögupersónanna gleggstur vitnisburður um trú höfundarins. Miskunnsami Samverjinn gengur ljósum logum um blaðsíður og trú, von og kærleikur er leiðarljós höfundar og söguhetjanna. Prestar eru öllum mönnum betri, og í sumum bókanna er hinn útvaldi jafnvel prestur, samanber hann Jens á Lómatjörn, sem ungur lagði ást á móðurleysingjann Snæbjörgu í bókinni Snæbjörg í Sólgörðum. Preststarfið er til marks um góðvild og æðri tilgang í lífinu. Allar góðu sögupersónurnar eru trúaðar, hinar slæmu eru hugsanlega kirkjuræknar en hafa ekki sanna trú – nema ef til vill á banabeðinum.
Læknir í leit að hamingju fjallar um prestdótturina Evu Bjarkan sem einnig er hjúkrunarnemi. Hún trúlofast lækni, en vegna misskilnings rýfur hann trúlofunina. Eva kynnist móður hans, sem verður svo til að sætta elskendurna. Þær Eva og frú Guðný, væntanleg tengdamóðir hennar, eiga trúna sameiginlega.
„Ég lærði ung að treysta þeim leiðtoga, sem aldrei bregst mér, og ég fyrirverð mig ekki fyrir að viðurkenna það, hvar sem er.“
Frú Guðný horfir á Evu, og göfugmannlegur svipur hennar ljómar af gleði.
„Þetta gleður mig sannarlega að heyra, Eva, því þessi orð hafa einmitt verið mín kjörorð í lífinu. En ég hef aldrei hingað til fyrirhitt ungmenni, sem gert hefur svo fagra og einlæga játningu um trú sína. Og vissulega þarft þú engu að kvíða, hvert sem spor þín liggja, því að allt verður þeim til góðs, sem Guð elskar.“ (Læknir í leit að hamingju, s. 68-9)
Það má jafnvel segja að allar hinar göfugu söguhetjur þjóni þeim tilgangi höfundar að sýna fram á hvernig kristilegur kærleikur sé uppskriftin að hamingjusömu lífi. Það þarf auðvitað að ganga í gegnum þrengingar og mótlæti, en ef innrætið er gott og trúin er sönn þá fer allt vel að lokum.
Sögusvið
Margar af sögunum gerast í Reykjavík, en oftast er þó sögusviðið óskilgreind en blómleg sveit þar sem langt er milli bæja og auðvelt er að verða úti í vondum veðrum. Stundum gerast sögurnar í þorpi, sem ber nafn sem hvergi finnst á landakortinu. Einstaka sinnum er sagt stuttlega frá námsdvöl í útlöndum. En meginsögusviðið er Ísland og mannlífið í sveit eða borg. Það er ljóst að höfundi þykir íslensk sveitamenning vera öðru æðri en Reykjavík sollin og hættuleg. Helsta ráðið fyrir ungmenni í Reykjavík er að komast í sveit eða á sjóinn ef þau eiga að verða að góðu fólki. Slík viðhorf voru lengi við lýði eftir að fólksflutningar jukust til Reykjavíkur og fólk horfði með söknuði til hins fábrotna sveitalífs. Þessi sveitarómatík er mjög áberandi í bókum Ingibjargar.
Náttúrulýsingar
Sveitarómantíkin lýsir sér víðar. Náttúrulýsingar eru allmargar. Í nánast hverjum kafla er upphafin lýsing á náttúrunni, veðrinu, skýjunum og fjöllunum. Stundum stuttleg lýsing: „Veturinn er senn horfinn á braut. Vorið á leið yfir sæinn."(Glettni örlaganna, s. 76 ) – eða í löngu máli, ekkert síður í sögum sem gerast í borg en sveit. Í Glettni örlaganna eru Heiður og Unnar aðeins börn að aldri þegar þau kynnast. Hann er sonur fátækrar ekkju en hún heildsaladóttir og búa þau við sömu götu í Reykjavík. Föður hennar tekst að stía þeim sundur en leiðir þeirra liggja saman síðar, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Eins og í öllum sögum er vorið tákn um nýtt upphaf og bjarta framtíð.
Veturinn er horfinn í tímans djúp. Vorið sest að völdum. Nýtt líf brýst hvarvetna fram og blómgast í ríki náttúrunnar. Elfur og fossar slíta af sér klakahlekki. Frækornið, dýpst í skauti foldar, fikrar sig upp í ljósið og ylinn. Söngfuglinn trúfasti kemur svífandi vængjum þöndum yfir höfin breið, heim í grænkandi dal og strönd.
(Glettni örlaganna, s. 50)
Þótt sagan gerist í Reykjavík á lýsingin við um óspillta náttúru sveitarinnar. Sögupersónurnar upplifa ekki þessa náttúru, en lesendur fá að njóta hennar í orðum höfundarins.
Við bláa voga fjallar um Ásrúnu, ljósmóður í sveit, sem er „reykvísk að uppruna“ en eins og góðri söguhetju sæmir er hún gagntekin af fegurð landsins. „Þvílíkt samspil lífs og unaðssemda, hugsar Ásrún full lotningar. Hún opnar herbergisgluggann upp á gátt, og teygar að sér ferskt og svalandi sjávarloftið, sem berst utan af firðinum“ (Við bláa voga, s.15). Það er því ekki að undra að Ásrún felli hug til Frosta, bóndasonarins í Lundey, sem þar að auki er nýútskrifaður barnakennari. Söguhetjur allra bókanna eru náttúruunnendur og þó þær fari til útlanda að mennta sig (karlmenn í læknisfræði eða búfræði, konur í húsmæðraskóla) þá hvarflar aldrei annað að þeim en að flytja heim til ættjarðarinnar.
Enginn dónaskapur
Þó söguhetjunum þyki mikið til náttúru landsins koma er ekki hægt að segja að þær séu uppfullar af „náttúru“ sjálfar. Ingibjörg forðast gróft orðalag og kynlífslýsingar. Iðulega nægir elskendum að horfast í augu eða haldast í hendur, en koss verður kannski „heitur og langur,“ en bara einn koss, ekki margir. Dæmi um slíka hófsemi er að finna í bókinni Óskasonurinn. Þar gerist Reykjavíkurstúlkan Gígja ráðskona í sveit í forföllum húsmóðurinnar. Hún verður ástfangin af elsta syninum á heimilinu, Magnúsi búfræðingi sem er mikill mannkostamaður. Móðir hans ætlar honum þó annað kvonfang og reynir að stía þeim í sundur. En svo vikið sé aftur að dæminu um kossa, þá segir svo á blaðsíðu 98: „Magnús þrýstir henni að barmi sínum, og hún mætir vörum hans í löngum heitum þakkarkossi, en aðeins einum.“ Lýsingar á atferli ástfangins fólks verða oft upphafnar en kynhvötinni sem slíkri er ekki lýst nánar.
Haukur læknir, í samnefndri bók, er ráðinn til að gegna læknisembætti í sveit. Hann heillast í fyrstu af læknisdótturinni á staðnum, Agnesi, en þegar Anna vinnukona hjálpar honum við aðgerð, heillast hann af henni:
Haukur og Anna standa saman við hlið hins slasaða manns, og gera að sárum hans. Unga kaupakonan er ekki feimin eða hikandi lengur. Á þessari stundu rúmast það eitt í huga hennar að verða lækninum að liði. Handtök hennar eru örugg og viss, og ekkert fát á sér stað hjá henni. Í sál unga læknisins vaknar ný innileg aðdáun á þessari hugdjörfu stúlku, sem ekki hikaði við að fylgja honum út í vandann. Hæfileikar hennar í hjúkrun eru honum augljósir. Í helgi þagnarinnar mætast sálir þeirra í fyrsta sinn í göfugu líknarstarfi, og stundin líður. Aðgerðinni er lokið, og á aðstoð Önnu er ekki lengur þörf.
„Þú átt að verða hjúkrunarkona, Anna, – þú ert sköpuð til að líkna.“ Rödd hans er þrungin ástúð og lotningu.
(Haukur læknir, s. 47-48)
Skömmu síðar slasast Anna sjálf lítillega og þegar Haukur gerir að sárum hennar á hann hreinlega erfitt með að einbeita sér að verki, svo mikið er aðdráttarafl hennar:
Bjartir árdegisgeislar falla inn um gluggann á lækningastofunni. Ungi læknirinn losar varlega umbúðirnar frá sárinu, hlýjar líknarhendur hans snerta mjúklega enni og vanga og heit unaðarkennd streymir að hjarta hans, en þær tilfinningar verður hann að fjötra nú í hinu helga kalli embættisskyldunnar. Hann lýtur niður að Önnu og aðgætir sárið hennar vandlega, tíður andardráttur hans leikur um vanga hennar, heitur og sæluþrunginn eins og sólblærinn sjálfur. Önnu svimar, hún lokar augunum til þess að vera viss um að mæta ekki hinum töfrandi augum læknisins, sem hvíla stöðugt á henni. Hún getur það ekki, má það ekki. Hjarta hennar slær hratt og órótt og barmur hennar bergmálar titrandi slög þess. Unga lækninum er það ljóst, að sjúklingi hans líður ekki vel. Hann sér, hve litli, fagurlega gerði barmurinn bifast ótt og títt og heyrir hin þungu hjartaslög. Hin trausta, þróttmikla hönd hans sjálfs titrar lítið eitt á meðan hann býr vandlega um sár stúlkunnar, sem hann elskar, en engin orð rjúfa hina helgu þögn.
(Haukur læknir, s. 65)
Hér er um að ræða eina berorðustu lýsingu sem er að finna í verkum Ingibjargar. Það að barmur stúlkunnar er gerður að umtalsefni, hvað þá „litli, fagurlega gerði barmurinn“, er svo óvenjulegt að lesandinn fer næstum hjá sér. Höfundar sem skrifa ástarsögur í dag eru mun berorðari og jaðrar við að sumar sögur þeirra megi kalla „ljósbláar.“
Fyrir gef oss vorar skuldir
Þó að vont fólk verði til að spilla milli ástfanginna para, þá er mjög mikilvægt að vonda manneskjan í sögunni fái fyrirgefningu synda sinna. Höfundur er ekki svo illgjarn að skilja persónur sínar eftir með samviskubit eða óuppgerðar sakir. Ávallt skulu þær iðrast og biðjast fyrirgefningar á því sem þær gerðu á hlut hinnar góðu söguhetju. Og söguhetjan fyrirgefur fúslega, enda ber hún ekki kala í brjósti til nokkurs manns.
Hér er enn dæmi tekið úr bókinni um Hauk lækni, en þegar hér er komið sögu tala saman þær Anna og Agnes, en sú fyrrnefnda hjúkrar Agnesi eftir bílslys:
Hún er þess fullviss, að það var engin önnur en Anna, sem hjúkraði henni með slíkri umhyggju og kærleika í þjáningum hennar. Slíkt átti hún ekki skilið af Önnu. Heitur klökkvi fyllir sál hennar. Í fyrsta skipti mætir hún með fullri meðvitund fyrir dómstóli sinnar eigin samvisku, og tárin brjótast fram í augu hennar. Heit af auðmjúkri, brennandi þrá eftir fyrirgefningu fátæku telpunnar frá Gili lauga þau sorann úr sál hennar. Það góða vinnur glæsilegan sigur. ...
„Getur þú fyrirgefið mér allt, sem ég hef gert á hluta þinn, Anna?“ Agnes réttir henni hönd sína.
“ Það er ekkert að fyrirgefa. Ég hefi aldrei verið reið við þig, Agnes, heldur þvert á móti.“ Anna tekur þétt í útrétta hönd hennar.
(Haukur læknir, s. 147-148)
Anna telur sig ekki þurfa að fyrirgefa neitt því í góðmennsku sinni gerist það ósjálfrátt að hún erfir ekki það sem gert hefur verið á hluta hennar. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að Agnes biðji um fyrirgefningu. Iðrun er mikilvæg í lífi hvers kristins manns og án hennar verður ekki komist í himnaríki. Höfundurinn vill sögupersónum sínum vel, líka þeim sem breyta rangt eða eru á annan hátt breyskar. Enginn deyr, nema hafa létt á hjarta sínu og beðist fyrirgefningar.
Nöfn og ónefni
Nöfn sögupersóna eru engin tilviljun. Oft eru nafngiftir mikill höfuðverkur hjá höfundum, því stundum á að vísa í frægar persónur, stundum má það alls ekki gerast og stundum á nafnið eitt og sér að segja til um persónuleikann. Þetta er Ingibjörg Sigurðardóttir sér mjög meðvituð um og hefur sínar eigin aðferðir við að gefa sögupersónum nöfn. Söguhetjurnar heita ávallt hljómmiklum íslenskum nöfnum og stundum ættarnöfnum sem vísa í íslenska náttúru eins og t.d. Heiðdal eða Bjarkan.
Vonda konan í sögunni, sem annað hvort er rík eða léttúðardrós, en alltaf hrokafull og illgjörn, heitir ávallt einhverju útlensku nafni, eða er kölluð gælunafni sem endar á yfsiloni: Agnes, Súsanna, Lotta, Bettý, Dollý. Þessi útlensku ónefni sýna best hversu fjarri íslenskri náttúru þær eru – andstætt söguhetjunni sem ann landinu sínu hugástum.
Konur í öllum hlutverkum: Hetju, höfundar og lesanda
Ástarsögur hafa talist til afþreyingar og ekki álitnar merkilegar sem slíkar. En nú á tímum póstmódernisma hefur afþreyingarmenning hlotið uppreisn æru og því er vel við hæfi að ástarsögur fái þann sess sem þeim ber í bókmenntastofnuninni.
Það að ástarsögur hafa allajafna verið skrifaðar af konum hefur eflaust átt sinn þátt í hve ómerkilegar sögurnar þóttu, og þá ekki síður lesendahópurinn. „Það hefur ekki þótt fínt að lesa ástarsögur ef tekið er mið af ríkjandi mati. Bækurnar eru í flestum tilfellum skrifaðar af konum og fyrir konur. ... Sú staðreynd að kvenleg iðja hefur ekki verið metin til fjár líkt og verkvit karla á sinn þátt í að móta viðhorfið til kvennabókmennta“ (Vala, s. 8).
Það telst til tíðinda í bókum Ingibjargar ef karlmenn sinna hefðbundnum kvennaverkum. Jafnvel er tekið fram að einn bóndinn kunni alls ekki að mjólka kýr. Eldhúsverkin eru þeim í flestum tilvikum framandi en það er aftur á móti ríki kvennanna. Stúlkur eru gjarnan húsmæðraskólagengnar og metorð þeirra felast í matreiðslu og kökubakstri ásamt vænum skammti af hreinlæti. Þetta er einna mest áberandi í bókinni Óskasyninum en þar er húsfreyjunni hin mesta raun að vita að ráðskonan standi sig vel meðan hún sjálf liggur bjargarlaus á sjúkrahúsi. Hún reynir að koma í veg fyrir að ráðskonan fái að undirbúa veislu, en elsti sonurinn á bænum, Magnús hreppstjóraefni, þvertekur fyrir það eða að hún þurfi neina hjálp. Enda veit hann sem er að það er metnaðarmál að geta slegið upp veislu án aðstoðar. Og ráðskonan gerir sér lítið fyrir og hreingerir húsið ásamt því að elda og baka og prjónar svo lopapeysu á kvöldin. Lopapeysan er auðvitað sérstaklega vel gerð, svo að Magnús fær ekki orða bundist: „Þetta er listarútprjón og litunum smekklega raðað í bekkjunum“ (Óskasonurinn, s. 83). Þessi athugasemd hans er svo ólík nokkrum karlmanni fyrr og síðar að hún hefði aldrei getað komið nema frá innstu hjartarótum höfundarins. Magnús á þó að vera hagur til karlmannlegra verka og tekur meðal annars að sér að gera við jeppa nágranna síns. Þegar hann útskýrir verkið kemur enn og aftur í ljós að það er kona sem heldur um pennann, kona sem hefur ekki minnsta áhuga á karlmannsverkum:
„Jeppinn hans er smávegis bilaður, og við buðum honum svo að aka með hann fram að Fossum eftir æfinguna. Hann var líka að biðja mig að líta á bílinn hjá sér, ef ég kynni að sjá, hvað að væri.“
„Og gastu séð það fyrir hann, góði minn?“
"Já, ég sá það fljótt, hann vantar smástykki, sem ég lofaði að kaupa fyrir hann ... Ég lofaði Hákoni því að koma svo með stykkið í jeppann fram eftir til hans annað kvöld og setja það í bílinn.“
(Óskasonurinn, s. 51)
Hver sú sem hefur heyrt karlmenn tala saman um bíla, hlýtur að hafa tekið eftir orðaflaumnum sem því fylgir, og líkurnar á því að þeir láti sér nægja að tala um „stykki“ sem vantar eru nákvæmlega engar. En lesendur láta sér það líklega í léttu rúmi liggja, enda með áhyggjur af afdrifum sögupersónanna og geta vart beðið eftir að vita hvernig fer fyrir þeim. „Ástarsögur eru bækur um sambönd sem eiga að höfða beint til líðunar og tilfinninga lesandans. Samkvæmt því getur lesandinn orðið svo heltekinn af atburðarásinni og afdrifum hetjunnar að hann getur ekki lagt bókina frá sér“ (Vala, s. 8).
Tími
Allar sögurnar gerast á tuttugustu öldinni. Það er ekki alveg ljóst hvenær, en í sumum bókanna er þess getið að sláttuvélar og jeppar séu að halda innreið sína í sveitirnar og í öllum bókunum eru bílar og símar. En þar með eru nútímaþægindi nánast upptalin. Sjónvarpsgláp þekkist ekki hjá söguhetjunum hvað þá ráp á vídeóleigur. Enda hvorki sjónvörp né myndbandstæki til á íslenskum heimilum þegar fyrstu bækur Ingibjargar eru skrifaðar. Hún hefur þó haldið sig við þennan óskilgreinda tíma fyrri bókanna og að því leyti eru bækurnar tímalausar og verða einnig hver annarri líkar. Þjóðfélagsbreytinga er alls ekki getið, hvorki hvað varðar pólitík eða samfélagsgerð.
Undantekning frá þessu er smáklausa í Snæbjörgu í Sólgörðum, þar sem heimilisfólk er að hlusta á útvarpsfréttir:
Fyrst greinir þulurinn frá ýmsum atburðum úti í hinum stóra heimi. Óeirðum, slysförum, ágreiningsmálum stjórnvalda, neikvæðu lífsmynstri þjóða og einstaklinga, af nógu virðist vera að taka.
(Snæbjörg í Sólgörðum, s.189)
Ingibjörg Sigurðardóttir leggur ekki áherslu á atburði úti í hinum stóra heimi, hennar vettvangur er trú, von og kærleikur.
© Bára Magnúsdóttir, 2002
Feðgarnir á Fremra-Núpi
Lesa meiraHrafnhildur
Lesa meiraSýslumannssonurinn
Lesa meiraBylgjur
Lesa meiraBergljót
Lesa meiraDie grüne Großmutter
Lesa meiraVið bláa voga
Lesa meiraGlettni örlaganna
Lesa meiraHöll hamingjunnar
Lesa meira